*

sunnudagur, 12. júlí 2020
Innlent 28. október 2017 14:15

Verðmætin verða ekki til hjá ríkinu

Gylfi Arnbjörnsson segir að eina skynsamlega skýringin á hækkunum kjararáðs sé að forystumenn stjórnmálaflokkanna hafi allir fallist á hana.

Gunnar Dofri Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

„Það hefur lengi verið áhersluatriði hjá hreyfingunni að finna leið til að það fari saman bæði öflug atvinnuþróun en jafnframt svigrúm til að bæta kjör og gera það á grundvelli stöðugleika og að kaupmáttur geti vaxið við skilyrði lægri verðbólgu og vaxta. Það hefur ekki tekist að skapa sátt um þessa þróun,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins.

Hann segir að hið opinbera en ekki almenni vinnumarkaðurinn hafi gefið tóninn í launahækkunum undanfarið og vísar sérstaklega til hækkunar kjararáðs á launum æðstu embættismanna ríkisins. „Bæði ASÍ og BSRB sömdu á grundvelli stöðugleika árið 2013 meðan háskólasamfélagið og kennarar vildu það ekki. Aftur gerist þetta svo 2015 og byrjar með miklu umróti eftir samninga ríkisins bæði við lækna og framhaldsskólakennara og síðan mjög langt verkfall háskólamanna hjá ríkinu og hjúkrunarfræðinga sem endaði með lagasetningu og gerðardómi. Síðan getum við endurnýjað samkomulag á grundvelli gerðardóms – hann var sú viðmiðun sem lá að baki SALEK. En aftur fór það svo að vegna kröfu um leiðréttingu launa náðist ekki samkomulag þannig að háskólamenn og kennarar voru aftur fyrir utan. Það hafa því ekki verið gerðir neinir samningar við stóra hópa nema við grunnskólakennara í fyrra síðan þá. Samt er staðan þessi og ástæðan er kjararáð,“ segir Gylfi.

Stjórnmálin hafi því að mati Gylfa ákveðið að við þessar aðstæður ætti að lyfta kjörum æðstu ráðamanna og stjórnenda ríkisins. „Það blasir við að ef þú tekur háskólamenn í ríkisþjónustu sem vinna við hliðina á skrifstofustjórum og ráðuneytisstjórum að þeir sætta sig ekkert við launamun sem er margfaldur. Stjórnendur þurfa auðvitað umbun fyrir að stjórna og að bera ábyrgð, en að ráðuneytisstjóri sé á þreföldum launum sérfræðinga eða skrifstofustjóri á tvöföldum gengur ekki upp. Þetta blasir alveg við. Þetta hefur sett stöðu kjaramála í algjört uppnám.“

„Sýn ASÍ á þróun kjaramála er allt önnur en þetta. Þessi staða getur ekki endað vel. En það er líka alveg ljóst að við höfum hvorki sótt eftir og þótt við reyndum myndum við ekki fá umboð okkar félagsmanna til að láta þetta hjá líða. Það er enginn vilji hjá aðildarfélögum ASÍ að sættast á þetta og ég verð að viðurkenna að ég sé engar forsendur fyrir því að það sé hægt að leggja þetta til grundvallar. En þetta er ekki þróun sem byggir á neinum efnisrökum – það hefur komið fram að frá því að Hagstofan birti síðustu greiningu sína að ríkið er leiðandi, ekki bara í launaþróun heldur líka í launasetningu. Skrifstofustjóri hjá ríkinu, í því öryggi sem hann býr við, er betur launaður en æðstu stjórnendur í atvinnulífinu að meðaltali.“

„Það er hvergi annars staðar þannig að ríkið leggi línurnar. Verðmætin verða ekki til hjá ríkinu, þó svo að störf hjá ríkinu séu auðvitað mjög verðmæt og hlutverk hins opinbera mjög mikilvægt í okkar samfélagi. Verðmætin verða til annars stað- ar og í okkar litla samfélagi þurfum við að sækja verðmætin með útflutningi. Þess vegna byggir norræna módelið á því að aðstæður í útflutningsgeiranum ráða hvaða svigrúm er til launahækkana. En okkar leið er sú að ríkið mótar þetta út frá tekjum og útgjöldum ríkisins en ekki hagkerfisins. Síðan er krónan bara afréttari,“ segir Gylfi.

„Ég er helsti talsmaður þess að hér gæti með einhverju móti orðið stöðugri gjaldmiðill. En það verður að ná utan um þessa stöðu fyrst. Við höfum engan áhuga á að koma hér á einhverjum grískum aðstæðum. Ef það verður ekki ventill í kringum gjaldmiðilinn þá verður það í gegnum vinnumarkaðinn.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.