Rannsóknir námufyrirtækisins AEX Gold á hinu svokallaða Sava svæði á Suður-Grænlandi hafa leitt í ljós að þar er að finna kopar, sink, mólýbden, gull, silfur og níóbíum í járnríku málmgrýti, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Félagið, sem Eldur Ólafsson stýrir, segir að allt bendi til þess að á svæðinu sé svokallað IOCG málmgrýti, sem er ríkt er af verðmætum málmum eins og gulli og kopar.

Niðurstöðurnar eru sagðar styðja við kenningar AEX um að Sava svæðið liggi á auðugu belti málmgrýtis sem liggi frá Kanada til Skandinavíu. Tilvist þessa beltis hefur ekki verið sönnuð, en félagið telur rannsóknirnar renna stoðum undir þessa kenningu.

„Við höfum unnið út frá þeirri kenningu að á Suður-Grænlandi sé að finna umtalsvert magn verðmætra málma, ekki bara gulls og úrans, heldur einnig svokallaðra sjaldgæfra málma, sem á ensku kallast rare earth metals, en einnig málma eins og kopars og sinks. Þessir málmar gegna afar mikilvægu hlutverki í orkuskiptum og tækniframförum á heimsvísu,“ segir Eldur.

„Líkön okkar segja að náman í Grænlandi gæti verið jafn góð og stórar námur í Voiseys firðinum í Kanada, Gardar héraðinu í Grænaldi og Kiruna í Noregi en þær eru allar á heimsmælikvarða.“

Sava svæðið liggur nærri Nalunaq námunni, en AEX greindi nýlega frá niðurstöðum tilraunaborana. Félagið greindi frá því að við tilraunaborun hafi fundist gull í 27 af 51 holu. AEX telur því að svæðið á suður Grænlandi hafi lengi verið vanmetið.

Sjá einnig: Gullleit á Grænlandi „langt umfram væntingar“

AEX segir að finnist fleiri málmar á svæðinu geit þeir reynst mikilvægir til að koma á orkuskiptum og framleiðslu á nútíma raftækjum.

„Stríðið í Úkraínu hefur vakið marga til vitundar um mikilvægi þess að fyrirtæki heimsins hafi greiðan aðgang að þessum málmum. Það skiptir því afar miklu máli ef hægt er að vinna þá með ábyrgum hætti í Grænlandi,“ segir Eldur.

AEX var stofnað árið 2017 með megináherslu á gullleit og -rannsóknir á Grænlandi. Fyrirtækið er með leyfi til að leita að og vinna gull og aðra verðmæta málma í Suður-Grænlandi. Stærsta eign AEX er Nalunaq gullnáman, sem verið er að koma aftur í vinnslu. Hlutabréf AEX eru skráð í kauphallirnar í Toronto og London, en meðal stærstu hluthafa í félaginu eru íslenskir fjárfestar, þjóðarsjóðir Grænlands og Danmerkur og stærsti lífeyrissjóður Grænlands.