Íslandsbanki verðmetur hlutabréf HB Granda hf. 13% hærra en síðasta skráða verð á félaginu samkvæmt skýrslu sem gefin var út í gær, en við lokun markaða í dag birtir HB Grandi uppgjör sitt fyrir 2. ársfjórðung.

Engin breyting á gengi bréfa í dag

Er mat bankans að hver hlutur í félaginu sé að verðmæti 0,26 evrur, sem jafngildir 33,8 krónum á hlut miðað við núverandi gengi evrunnar.

Bréf fyrirtækisins standa nú í 30,65 krónum á hlut, og hefur engin breyting orðið á gengi bréfanna í dag og nálega engin viðskipti. Er mat bankans því enn 10,27% hærra en núverandi gengi bréfa fyrirtækisins.

Metið á 31,3 krónur á hlut í janúar

Síðasta verðmat Íslandsbanka á fyrirtækinu frá janúarmánuði gaf verðmatsgengið 0,203 evrur á hlut, sem þá jafngildi 31,3 krónum á hlut. Forsendur bankans miðast við hóflegan 1% tekjuvöxt á spátímabilinu og 3% aukningu fjárstreymis frá félaginu.

Byggir bankinn á uppgjörum síðustu missera og reiknuðum ábata af nýsmíði þriggja ísfiskstogara sem félagið fær afhent fram á næsta ár. Líta þeir til EBITDA ársins 2015 til að útreikningarnir taki ekki tillit til loðnubrests í ár.

Hækka áhættuálag vegna loðnubrests

Til að reyna að koma almennum óvissuþáttum eins og stöðu fiskistofna, fiskveiðistjórnunarkerfisins, olíuverðs, stöðu Nígeríumarkaðs og viðskiptabanns á Rússland, inn í greininguna þá reyna þeir að gera það í gegnum kröfu til eiginfjár.

Gera þeir 10% kröfu á eigið fé. Telja þeir  eðlilegt að auka áhættuálag í kröfu til eiginfjár fyrirtækisins frá síðasta verðmati, en þar var ekki gert ráð fyrir loðnubresti.

Telja þeir áhrif væntanlegrar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu geta verið einhver til skamms tíma, 9,2% af tekjum fyrirtækisins hafi verið frá Bretlandi á síðasta ári. Meta þeir þó að áhrifin verði ekki mikil og þau verði skammvinn.