*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 27. febrúar 2020 16:10

Verðmiði Gamma lækkað um 1,7 milljarða

Kaupverð Kviku fyrir Gamma lækkar um 450 milljónir til viðbótar. Verðið er orðið 40% lægra en stefnt var að í upphafi.

Ingvar Haraldsson
Haraldur Guðjónsson

Kaupverðið sem Kvika greiðir fyrir Gamma hefur lækkað um nær 1,7 milljarða eða um 40% frá því sem félagið hugðist greiða í upphafi.

Þegar fyrst var greint frá kaupunum sumarið 2018 átti kaupverðið að nema 3,75 milljörðum króna. Þegar gengið var frá kaupunum í byrjun síðasta árs hafði kaupverðið lækkað í 2,5 milljarða króna. Nú áætlar Kvika að kaupverðið verði ekki nema um 2,1 milljarður króna samkvæmt nýbirtu uppgjöri félagsins.

Endanlegt kaupverð varð að stórum hluta árangurstengt. Kvika greiddi 1,1 milljarð með reiðufé. Þá keypti Kvika hlutdeildarskírteini í sjóðum Gamma fyrir hálfan milljarð króna. Afgangurinn, um milljarður króna var í formi árangstengdra greiðslna eftir því hvernig gekk hjá sjóðum Gamma. Í uppgjöri Kviku fyrir síðasta ár kemur fram að félagið hafi lækkað mat sitt á hvert endanlegt kaupverð verði um 447 milljónir króna, að mestu vegna endurmati á afkomu hjá Gamma. Því áætlar Kvika að ógreiddar séu 495 milljónir króna af kaupverðinu.

Niðurfærsla fasteignasjóða

Í lok september kom í ljós að færa þyrfti niður tvo sjóði hjá Gamma, Novus og Anglia. Novus hafði fjárfesti í fasteignafélaginu Upphafi. Mat á eigið fé sjóðsins var lækkað úr 4,4 milljarða króna í 42 milljónir króna. Skuldabréfaeigendur Novus og Kvika enduðu á að leggja honum til milljarð króna og samþykkja vaxtalækkun á skuldabréfum þess. Þá fékk Gamma endurskoðunarskrifstofuna Grant Thorton til að fara yfir allar millifærslur Upphafs. 

Á meðan viðræðurnar við Kviku stóðu yfir átti Gamma í nokkrum lausafjárvandræðum. Stoðir lánuðu félaginu milljarð og tóku fyrir 150 milljóna króna þókknun samkvæmt frétt Fréttablaðsins um málið.

Gengi Anglia var fært niður úr 105 í 55 eftir fjárfestingu í fasteignaverkefni á Bretlandi sem ekki hafði gengið eftir. Meðal þeirra sem töpuðu á niðurfærslunum voru íslensk tryggingarfélög og lífeyrissjóðir.

Flestir starfsmenn GAMMA hafa látið af störfum hjá sameinuðu félagi. Þá hefur starfsemi Gamma verið flutt úr Garðastræti í Höfðatorgsturninn þar sem sameinað félag er með skrifstofur. 

Stikkorð: Gamma Kvika Anglia Novus