Hópur fjárfesta sem keypt hefur 20% hlut í Sjóvá til viðbótar við 52,4% í félaginu greiddi um 2,5 milljarða króna fyrir hann nú. Þetta er upp undir 25% hærra verð fyrir hvern hlut í tryggingafélaginu en sömu fjárfestar greiddu fyrir félagið fyrir um ári síðan. Fjárfestahópurinn fer nú með 73% hlut í Sjóvá á móti eignarhaldsfélaginu SAT og Íslandsbanka. Heildarkaupverðið fyrir 73% hlut í Sjóvá sem áður var í eigu Eignasafns Seðlabankans nemur þessu samkvæmt um 7,4 milljörðum króna. Samið var um verðið sem greitt var fyrir hlutinn nú fyrir um ári síðan.

Erna Gísladóttir, stjórnarformaður Sjóvár, segir í samtali við vb.is stefnt að skráningu Sjóvár á hlutabréfamarkað á seinni hluta næsta árs. Vinna við undirbúning skráningar fer senn að hefjast og telur hún að ferlið taki um tólf mánuði. Erna bendir á að Sjóvá uppfylli nú þegar mikið af þeim skilyrðum sem þurfi til skráningar á markað en félagið er nú þegar undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins.

Spurð hvort núverandi hluthafar ætli að hverfa úr hluthafahópnum við skráningu á hlutabréfamarkað svarar Erna, að slíkt hafi ekki verið ákveðið. „Við munum skoða hvernig það verður gert í samráði við hina tvo hluthafana. Við viljum taka þetta í réttri röð. Nú munum við fara í að skoða hvernig skráningin verður," segir hún.