Verðmunur á bensíni og dísilolíu hefur aukist hratt frá því í byrjun árs og er nú 19 krónur. Verð á bensínlítranum nú er um 213 krónur og dísillítrinn kostar um 194 krónur. Greint er frá málinu í Morgunblaðinu .

Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, segir í samtali við Morgunblaðið að ef munurinn haldi áfram að aukast megi búast við að eftirspurn eftir dísilbílum aukist líka.

„Dísilbílar eru yfirleitt dýrari í innkaupum. Það munar þó ekki miklu á þeim og bensínbílum en það er oftast verðmunur á milli þeirra. Í flestum tilfellum í dag nær dísilbíll fleiri kílómetrum úr hverjum lítra en bensínbíll en hins vegar hefur orðið mikil breyting þar á. Bensínbílarnir eru alltaf að færast nær og nær hvað eyðslu varðar,“ segir Özur við Morgunblaðið.

Hugi Hreiðarsson, markaðsstjóri hjá Atlantsolíu, segir í samtali við Morgunblaðið að verðið á bensíni og dísilolíu sveiflist eftir árstíðum. Aukin ferðalög almennings ýti bensínverði upp gagnvart dísilolíu og þegar haustið komi, með tilheyrandi kulda, muni eftirspurn eftir dísilolíu aukast, sem gæti ýtt verði upp.