*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 23. október 2017 15:48

Verðmunurinn 10 þúsund krónur

Könnun FÍB sýnir að ódýrasti rafgeymirinn fæst í Costco þrátt fyrir ríflega fimmtungshækkun frá því verslunin opnaði.

Ritstjórn
Ódýrustu rafgeymarnir fást í Costco samkvæmt könnun FÍB. Þeir hafa samt hækkað um 21% frá opnun.
Haraldur Guðjónsson

Talsverðar breytingar, þá aðallega til lækkunar, hafa orðið á kostnaði við rafgeyma frá því Félag íslenskra bifreiðareiganda gerði síðustu rafgeymaverðkönnun sína þann 14. október 2014. Þrátt fyrir að hafa hækkað um 21 frá því verslunin fyrst opnaði í vor, fæst ódýrasti rafgeymirinn enn hjá Costco á 12.119 krónur meðan sá dýrasti í könnun FÍB reyndist á 22.901 krónu í Brimborg.

Ákvað félagið að endurnýja könnunina nú að nýju vegna þess að haustið er sá tími ársins sem leiði best í ljós veikleika rafgeymisins í bílnum og hvort tími sé til að endurnýja hann.

„Nú styttist óðum í að vetur konungur gengur í garð og margur bíleigandinn hefur eflaust þegar komið að bílnum sínum straumlausum eftir frostkalda nótt eða á eftir að gera það,“ segir í fréttatilkynningu félagsins en niðurstaðan á sínum tíma sýndi að þá kostaði ódýrasti rafgeymirinn 14.995 kr. en sá dýrasti kostaði 26.560 kr.

„Frá þeim tíma hefur vegið meðaltal af gengi helstu gjaldmiðla gagnvart krónu  lækkað um 20%.  Þann 1. janúar 2015 lækkaði almennt þrep virðisaukaskatts úr 25,5% í 24% og á sama tíma voru vörugjöld á rafgeyma m.a. lögð af. Innkoma Costco síðasta vor hefur einnig haft áhrif á markaðinn.

Costco hefur reyndar hækkað verðið á Bosch 60 Ah rafgeyminum um ríflega 21% frá því í vor en þá kostaði hann 9.999 kr.  Hjá Vöku kostar Bosch 60 Ah rafgeymir 15.990 kr og hjá Kemi kostar sami geymir 17.188 kr. Athygli vekur að ódýrasti rafgeymirinn 2014 var Exide 62 Ah hjá Bauhaus sem kostaði 14.995 kr. en þessi sami geymir kostar í dag hjá Bauhaus 21.295 kr.“

Stikkorð: Bauhaus Brimborg FÍB Costco verðkönnun rafgeymar