Verðsamráð Húsasmiðjunnar og Byko gegn Múrbúðinni og neytendum hefur hækkað byggingarkostnað um milljarða króna, með tilheyrandi vísitöluhækkun á lánum heimila og fyrirtækja. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Múrbúðinni. Eins og VB.is greindi frá hefur Húsasmiðjan viðurkennt alvarleg samkeppnislagabrot og er málinu lokið með sátt.

Í tilkynningunni segir að með samráðinu hafi fyrirtækin rutt úr vegi einu alvöru samkeppninni sem var á þessum markaði. Múrbúðin telur rétt að benda á að þótt fyrrum eigendur Húsasmiðjunnar hafi tekið að sér að greiða sektina, þá byggir núverandi markaðsstaða Húsasmiðjunnar á ólögmætri samkeppnishegðun fyrirtækisins á sínum tíma. Þeir starfsmenn Húsasmiðjunnar sem brutu samkeppnislög starfa þar enn, þó að þeir sæti sakamálaákæru.

Þá kemur fram að lögbrot Húsasmiðjunnar hafi átt sér stað meðan fyrirtækið var í eigu Landsbankans og Framtakssjóðs Íslands og það sé Landsbankinn sem taki á sig 325 milljón króna sekt. Það séu því landsmenn sem nú borga sektina.