Verð á fjarskiptaþjónustu hefur farið ört lækkandi á síðustu mánuðum. Samkvæmt nýjustu útreikningum Hagstofunnar hefur verð á farsímaþjónustu lækkað um 17% frá mars árið 2015 til þessa árs. Á sama tíma hefur verð á internettengingum lækkað um 7%.

Nýlega hafa fjarskiptafyrirtækin kynnt ýmsar nýjar tilboðsleiðir þar sem boðið er upp á gjaldfrjáls símtöl í öll símkerfi, gjaldfrjálsar sms-sendingar og töluvert af gagnamagni gegn vægu mánaðargjaldi. Miklar hræringar hafa verið á meðal viðskiptavina þessara félaga í kjölfarið og ekki er augljóst enn hvort félagið hafi fengið til sín flesta viðskiptavini.

Samkeppnin blómstrar

Forstjórar fjarskiptafélaganna eru sammála um að verðlækkunin sé einkum samspil tveggja þátta: Tæknibreytinga og aukinnar samkeppni. Þau leggja þó öll áherslu á að samkeppnin hafi verið lykilþáttur. „Ég held að samkeppnin á þessum markaði sé að blómstra sem aldrei fyrr,“ segir Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova.

„Það hvernig við greiðum fyrir farsímaþjónustu er að breytast. Hérna áður fyrr greiddir þú fyrir símtöl, sms og netið en núna er þetta orðið fyrst og fremst þannig að nú greiðir þú fyrir netið og annað fylgir frítt. Þetta er orðin miklu meiri netþjónusta en símaþjónusta.“

Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, tekur í svipaðan streng. „Það sem er að gerast er að aðilar á markaði eru að keppa bæði í verði og gæðum,“ segir hann. „Á sama tíma erum við að sjá fjarskiptafyrirtækin lækka kostnað á móti. Ég tel að þetta sé líka partur af alþjóðlegri þróun sem fjarskiptafélögin þurfa að laga sig að.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .