Nægi engar úrbætur til þess að efla samkeppni á íslenska eldsneytismarkaðnum kemur til greina að beita verðstýringaraðferðum til að ná fram markmiðum um lægra bifreiðaeldsneytisverð neytendum til hagsbóta. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í ríflega 300 blaðsíðna frummatsskýrslu Samkeppniseftirlitsins, sem ber heitið "Markaðsrannsókn á eldsneytismarkaði".

Að mati Samkeppniseftirlitsins er verðstýring á mörkuðum aðeins neyðarúrræði. Því kæmi ekki til verðstýringar nema aðrar leiðir til þess að efla samkeppni hafi ekki dugað. Bendir Samkeppniseftirlitið á að þó dregið hafi úr verðstýringu á Vesturlöndum undanfarna áratugi sé slíkt fyrirkomulag í gildi á fjarskiptamarkaði. Íslensk símafyrirtæki megi til dæmis ekki fara yfir ákveðna fjárhæð þegar þau rukka fyrir reikisímtöl í farsímanetum — símtöl á milli landa.