Ásgeir Jónsson lektor við Hagfræðideild Háskóla Íslands segir þak á verðbætur verðtryggðra fasteignalána vera raunhæfan kost fyrir hópa sem eru ekki með sterka eiginfjárstöðu. Þetta kom fram á fundi hjá Velferðarráðuneytinu í dag þar sem Ásgeir kynnti greinargerð sína sem unnin var fyrir ráðherra um skulda og greiðsluvanda heimilanna.

Í greinargerðinni er fjallað um kosti þess að setja þak á verðbætur verðtryggðra fasteignalána og raunvexti slíkra lána. Með þessu væri hægt að koma í veg fyrir að þjóðhagslegur óstöðugleiki, eins og verðbólguskellur, skapi kerfisbundin skuldavandræði meðal heimila landsins.

Einnig kemur fram að óraunhæft sé að setja þak á raunvexti. Ágeir segir slíkt aldrei komið til álita og það ætti að vera í hlutverki ríkisins að hafa áhrif á vextina.