Þetta er lánasamningur við eigendur, Reykjavíkurborg, Akranes og Borgarnes," segi Bjarni Bjarnason, forstjóri
Orkuveitu Reykjavíkur, um samninginn þar sem kveðið er á um að verðskrá fyrirtækisins þurfi að fylgja verðlagsvísitölu. Bjarni segir að ummælin hafi verið slitin úr samhengi í frétt Ríkissjónvarpsins frá 23. nóvember þar sem kom fram að ekki stæði til að hækka gjaldskrá fyrirtækisins á næstunni.

„Það sem ég sagði og hef alltaf sagt er að það sem við stefnum á með Planinu er að ná tökum á rekstrarvandanum til að auka hagnað og geta staðið í skilum. Það krefst ekki hækkunar á gjaldskrá, það er umfram raungildi," segir Bjarni í samtali við Viðskiptablaðið.

Eigendur Orkuveitunnar veittu fyrirtækinu víkjandi lán sem skrifað var undir í apríl 2011. Lánið er til fimmtán ára en er afborgunarlaust fyrstu fimm árin að sögn Bjarna. Samtals er um að ræða átta milljarða króna sem Orkuveitan hefur dregið á lánið á þessu ári en fyrirtækið mun fá lánaða fjóra milljarða til viðbótar á því næsta. Þá hefur verið dregið á lánið að fullu. „Eitt af skilyrðunum í þeim lánasamningi er að við látum gjaldskrá Orkuveitunnar halda verðgildi sínu," segir Bjarni um lánið frá eigendum Orkuveitunnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.