Tillögur ríkisstjórnarinnar um niðurfellingu verðtryggðra skulda fela ekki í sér að verðtryggð námslán verði felld niður. Þetta kom fram í máli Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag. Illugi sagði að samkvæmt Lánasjóði íslenskra námsmanna væru námslán í raun niðurgreidd að meðaltali um 31%.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að svar ráðherra ylli sér vonbrigðum. „Ég skil ekki hvar sú ákvörðun var tekin að öll verðtryggð lán ættu ekki að falla undir þetta,“ sagði Sigríður Ingibjörg. Hún sagði að menntamálaráðherra hefði svarað því til í sumar að það ætti að skoða námslánin eftir að tillögur um skuldaleiðréttingarnar lægju fyrir.