Framsóknarflokkurinn vill afnema verðtrygginguna í skrefum, fjölga óverðtryggðum lánakostum og að gjaldeyrishöft verði að fullu afnumin á næsta ári. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í tillögu til þingsályktunar þingflokks Framsóknarflokksins um stöðugleika í efnahagsmálum. Tillaga var lögð fyrir Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í dag. Flokkurinn vill að peningastefna síðustu ára verði skoðuð.

Í tillögunum er mælt með því að gjaldeyrishöft verið afnumið eins hratt og mögulegt er svo markaðsskráning verði komin á krónuna um mitt næsta ár. Hins vegar verði að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir skammtímalækkun á gengi hennar í kjölfar afnámsins. Að sama skapi er lagt til að leggja skatt á skammtímafjármagnsflæði inn í landið í þeim tilgangi að koma í veg fyrir óeðlilega skammtímastyrkingu krónunnar sem geti leitt af sér eignabólu, grafið undan atvinnugreinum og leitt til óeðlilegrar sveiflu á gengi krónunnar.

Í kjölfar afnámsins er mælst til þess að óháðir sérfræðingar verði kallaðir til að gera úttekt á peningastefnunni sem rekin hefur verið hér undanfarin ár. Í kjölfarið verði gerð ný og trúverðug áætlun um sterkari peningastefnu auk þess sem áætlun verði gerð í gjaldmiðlamálum.

Stöðugleiki í efnahagsmálum