Íbúðalánasjóður hefur verið sýknaður af kröfum Theodórs Magnússonar og Helgu Margrétar Guðmundsdóttur Málið snýst um fasteignalán sem þau Theodór og Helga Margrét tóku hjá Íbúðalánasjóði árið 2003. Í greiðslumati var miðað við 0% verðbólgu og kröfðust þau þess meðal annars að fá verðbætur, sem þegar höfðu verið greiddar, dregnar frá höfuðstóli lánsins.

Hæstiréttur taldi að með hliðsjón af orðalagi skuldabréfsins og þeirrar fjármálaráðgjafar sem þau hefðu fengið þá hefði Íbúðalánasjóður fullnægt upplýsingaskyldu sem á honum hafði hvílt samkvæmt þágildandi lögum. Einnig hafi Íbúðalánasjóði ekki verið skylt að láta þau fá sérstaka greiðsluáætlun sem gerði ráð fyrir tiltekinni hækkun vísitölu neysluverðs og að við gerð lánssamningsins hefði verið þörf að gera ráð fyrir að verðbætur teldust til heildarlántökukostnaðar en Hæstiréttur vísar þar til fyrri fordæma sinna. Einnig hafði tilskipun Evrópusambandsins varðandi neytendalán ekki lagagildi hér á landi og lögskýring gæti ekki leitt til annarar niðurstöðu.

Á þeim grundvelli var Héraðsdómur Reykjavíkur staðfestur.

Lögmaður áfrýjenda, Theodórs og Helgu

Þórður Heimir Sveinsson lögmaður,  Theodórs og Helgu segir í samtali við Viðskiptablaðið að hann telji dóm Hæstaréttar vera rangann. „Röng upplýsingagjöf hafi í raun engar afleiðingar í för með sér þá hefur þessi neytendavernd enga þýðingu og veiti ekki þá lágmarksvernd sem löggjöfinni var ætlað að veita,“ segir Þórður