Orðið verðtrygging er orðið einskonar meinyrði í orðaforða Íslendinga. Þetta sagði Valdimar Ármanns sjóðsstjóri hjá GAMMA og stundakennari við Háskóla Íslands, á kynningarfundi um skýrslu um verðtryggingu sem nú stendur yfir.

Valdimar segir að vissu leyti geta skipt eins miklu máli hvort um er að ræða jafnar afborganir lána eða jafnar greiðslur. Jafnar afborganir geti þannig mætt mörgum af helstu göllum hinna hefðbundnu íslensku lána þar sem með þeim er gengið hraðar á höfuðstól. Í þessu skyni valdi verðbætur sem leggjast aftan við höfuðstól láns einnig vanda.

Meðal þess sem skýrsluhöfundar leggja til sem lausn á þessum vanda er að greiðslubyrði lána verði gerð þyngri fyrr á endurgreiðslutíma lánsins. Þeir benda þó á að þetta sé í óhag þeirra sem yngri eru og ekki eins fjársterkir en þjóni helst þeim tilgangi að virka sem hemill á lántöku og skapa hvata fyrir heimili til að fara varlegar í lántöku.