Lesa má úr svörum sérfræðings framkvæmdastjórnar ESB í neytendalöggjöf að ólöglegt sé að veita verðtryggð lán án þess að taka tillit til verðbólgu í árlegri hlutfallstölu kostnaðar og heildar-lántökukostnaði. Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.

Sérfræðingurinn Maria Lissowska svaraði fyrirspurn dr. Mariu Elviru Mendez-Pinedo, prófessors í Evrópurétti við Háskóla Íslands, fyrir hönd Tonio Borg, sem fer með heilbrigðis- og neytendamál í framkvæmdastjórn ESB, en spurningin var jafnframt lögð fyrir Stefan Füle, stækkunarstjóra sambandsins.Tilefnið var rannsóknir um lögmæti verðtryggingar í ljósi Evrópuréttar sem Mendez-Pinedo hefur stundað undanfarin ár og umsagnir sem hún og fleiri sendu til Alþingis vegna nýs frumvarps til laga um neytendalán.

Stangast á við lög um neytendalán

Kjarninn í svari Lissowsku er, að mati Mendez-Pinedo, að verðtryggðir lánasamningar eins og framkvæmdin er á Íslandi, stangist á við lög um neytendalán eftir því sem fram kemur í frétt Morgunblaðsins. Ófrávíkjanlegt skilyrði er að lánveitandi upplýsi neytandann um heildarkostnað af lántöku fyrirfram.

Fallist EFTA-dómstóllinn á þessa niðurstöðu í prófmálum gæti það orðið afdrifaríkt á Íslandi. Málshöfðun Hagsmunasamtaka heimilanna gegn Íbúðalánasjóði gæti kostað ríkið hundruð milljarða efitr því sem fram kemur í fréttinni.