Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði segir svo víðtækar undanþágur vera á frumvarpsdrögum um bann við 40 ára verðtryggðum jafngreiðslulánum að bannið muni eiga við innan við 10% lántaka slíkra lána. Líklegt sé að hlutfallið sé nær 5%.  Þetta kemur fram í grein eftir Þórólf sem birtist í Viðskiptablaðinu í vikunni.

Frumvarpsdrögin eru hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga á almennum markaði í apríl. Frumvarpið nær einungis til verðtryggðra jafngreiðslulána en ekki verðtryggðra jafnafborganalána. Gert er ráð fyrir því að hámark lánstíma verðtryggðra jafngreiðslulána að verða 25 ár. Þórólfur bendir á að undanþágur fyrir einstaklinga undir fertugu, einstaklinga með lágar tekjur eða veðsetningarhlutfall undir 50%.

Óeðlilega þröngur hópur?

Þórólfur bendir á að þeir sem standi utan við undanþágurnar sé mjög þröngur hópur. „Sá hópur myndi samanstanda af einstaklingum eða sambýlisfólki sem er yfir 40 ára gamalt með tekjur umfram 4,2 milljónir (einstaklingur) eða 7,2 milljónir (sambýlisfólk) á næstliðnu ári og af fólki sem sæktist eftir verðsetningu milli 50 og 70% af verðmæti húsnæðis. Spyrja má hvort eðlilegt sé að þrengja kjör svo fámenns og sértæks hóps með almennri lagasetningu án þess að vitna megi til almannaheilla eins og lýst er í aðfaraorðum umsagnar þessarar,“ spyr Þórólfur

Þó sé ólíklegt að ákvæðin muni bíta fast þar sem ákvæðið nái ekki til jafnafborganalána. „Beinast liggur því við að þeir sem falla utan þess hóps sem undanþágur ná til taki jafngreiðslulán fyrir allt að 50% af verði húsnæðis og jafnafborganalán fyrir 20%.“

Því megi velta upp hvort hópurinn sé það lítill að það gangi gegn banni við mismunun í stjórnarskrá og í mannréttindasáttmálum.

Hafi helst áhrif á langskólagengna

Þórólfur telur líklegast að aðgerðirnar muni hafa áhrif á þau sem hafi háar tekjur en eigi lítið af eignum um fertugt. Þeir sem séu líklegastir til að falla í þann hóp séu langskólagengnir t.d. sérfræðilæknar og fólk með doktorspróf. Sennilegt sé að stór hluti þeirra sé í Bandalagi háskólamanna.

„Þannig má segja að inntak undanþáganna sé í raun að hafa áhrif á aðila sem ekki eru félagsmenn þeirra félaga sem gerðu kröfu um umræddar breytingar. Frá sjónarhóli siðfræði og almennrar kurteisi má spyrja hvort eðlilegt sé að krafa sem sett er fram af hálfu verkalýðsfélaga á almennum markaði gagnvart stjórnvöldum sé útfærð á þann hátt að hafa fyrst og fremst neikvæð áhrif á meðlimi annarra stéttarfélaga. Undanþáguákvæði frumvarpsins draga stórlega úr áhrifum fyrirhugaðrar lagabreytingar á meðlimi þeirra verkalýðsfélaga sem settu fram kröfuna,“ segir Þórólfur.