Það samrýmist ekki Evróputilskipun að miða við 0% verðbólgu í greiðsluáætlun verðtryggðra lána samkvæmt ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins, sem birt var í síðustu viku.

Óskað var eftir álitinu vegna máls, sem Sævar Jón Gunnarsson höfðaði gegn Landsbankanum. Í álitinu kemur enn fremur fram að það sé íslenskra dómstóla að meta hvaða áhrif þessi ranga upplýsingagjöf hafi haft. Þá eiga dómstólar líka að ákveða hvaða úrræðum sé hægt að beita, án þess að neytendaverndinni, sem fjallað er um í tilskipuninni, sé stefnt í hættu.

Í lok ágúst birti  EFTA-dómstóllinn álit í öðru verðtryggingarmáli en það var höfðað af Gunnari Engilbertssyni gegn Íslandsbanka. Töluvert mikið hefur verið fjallað um þessi tvö mál. Þau eiga nú eftir að fara sína leið í dómskerfinu hér heima og almennt er ekki búist við niðurstöðu fyrr en eftir tæpt ár.

Mál Sævars Jóns var höfðað vegna verðtryggðs neytendaláns. Þó að húsnæðislán hafi verið felld undir lög um neytendalán árið 2001 er ágreiningur um það hvort álitið taki til þeirra.

Svo gæti farið að mörgum af þeim spurningum sem varpað er fram í málum Sævars Jóns og Gunnars verði svarað í öðru dómsmáli. Það mál var höfðað gegn Íbúðalánasjóði og er merkilegt fyrir þær sakir að í því má segja að tekist sé á um öll þau atriði sem tekist er á um í málum Sævars Jóns og Gunnars.

Aðalmeðferð í málinu gegn Íbúðalánasjóði fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 8. desember. Næsta víst er að í því máli verður stuðst við þau ráðgefandi álit sem EFTA-dómstóllinn hefur birt í málum Sævars Jóns og Gunnars.

Í heildina nema verðtryggð lán til einstaklinga 1.401 milljarði króna, þar af eru 1.135 milljarðar vegna húsnæðislána.

Nánar er fjallað um málið í ítarlegri úttekt í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .