Að því gefnu að lántakar eru upplýstir nægilega vel um áhrif verðtryggingar á lán og afborganir þá er verðtryggingin sem slík ekki brot á tilskipun ESB um neytendalán, að mati Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Kemur þetta fram í svari ESA við fyrirspurnum Mariu Elviru Mendez-Pinedo, prófessors við lagadeild Háskóla Íslands.

Í svari ESA segir að tilskipunin taki aðeins á upplýsingagjöf til lántakenda en ekki innihaldi lánaskilmála. Því taki hún ekki á verðtryggingu á neytendalánum. Þess vegna sé verðtrygging sem slík ekki brot á tilskipuninni. ESA segir jafnframt að tilskipunin taki ekki á öllum hugsanlegum atriðum í lánasamningum.

Tilskipunin feli aðeins í sér að upplýsa verði lántaka um það hvaða vísitala sé notuð við útreikninga á vöxtum og verðbótum, bæði í auglýsingum og við samningsgerðina sjálfa. Breytingar á vaxtakjörum og öðrum gjöldum sem koma til vegna breytinga á vísitölu, sem mælt er fyrir um í lánasamningi og þar sem vísitalan er tekin saman af opinberum aðila eins og Seðlabanka Íslands, sé ekki einhliða breyting á samningskjörum í skilningi tilskipunarinnar. Þvert á móti geri verðtryggingarákvæði í lánasamningi ráð fyrir slíkum breytingum og tilskipun ESB stendur ekki í veginum fyrir því.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.