Íslandsbanki lækkaði fasta verðtryggða vexti fasteignalána sinna um 0,45 prósentustig nú um mánaðamótin,og bera slík lán nú 1,5% vexti, fasta til fimm ára í senn. Vextirnir voru þeir lægstu á þessari tegund lána fyrir lækkunina og eru því langtum lægstir í dag.

Enginn annar lánveitandi lánar á undir 2% verðtryggðum vöxtum föstum til 5 ára eða lengur, og einu lægri eða jafn lágu vextirnir eru hjá Almenna lífeyrissjóðnum og Frjálsa lífeyrissjóðnum, sem báðir gera kröfu um að lántaki hafi greitt iðgjöld í sjóðinn í 6 mánuði.

Séu kjörin borin saman við óverðtryggð lán á föstum vöxtum eru þau einnig ágætlega samkeppnishæf. Verðbólguspár fyrir næsta ár hafa verið á bilinu 3-3,5%, en sé miðað við lægri enda þess yrðu raunvextir lægstu föstu óverðtryggðu vaxta á markaðnum – hjá Frjálsa og aðeins í boði fyrir sjóðfélaga – 1,55%, en sé miðað við bankana yrðu þeir 1,85%.

Fasteignalánavextir
Fasteignalánavextir

Verðtryggingarjöfnuður lægstur hjá Íslandsbanka
Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri Íslandsbanka, segir bankann einfaldlega hafa séð tækifæri til að lækka vexti þessara lána vegna þeirra markaðsvaxta sem bankinn stendur sjálfur frammi fyrir við eigin fjármögnun.

Þótt vaxtakjör á sértryggðum skuldabréfum bankans – sem útlán hans eru að miklu leyti fjármögnuð með – hafi ekki breyst mikið nýlega, bendir Jón Guðni á að verðtryggingarjöfnuður hafi dregist nokkuð skarpt saman hjá öllum bönkunum síðustu misseri.

Lækkunin sé því liður í að bregðast við því og auka hlutdeild verðtryggðra lána með því að gera þau samkeppnishæfari, ekki aðeins við verðtryggð lán annarra lánveitenda, heldur óverðtryggð lán bankans sjálfs og annarra. „Ef þú berð saman kjörin á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum þá viljum við að það sé aðeins meira samhengi þar á milli. Með þessu verður þetta raunhæfari valkostur í flórunni.“

Samkeppnishæfi verðtryggingar ekki verið raunhæft
Aðspurður segir Jón Guðni ástæðu þess að verðtryggðu lánin hafa borið mun hærri álagningu og raunvexti en þau óverðtryggðu síðustu misseri einfaldlega þá að ekki hafi verið raunhæft að gera þau samkeppnishæf og aðlaðandi á meðan óverðtryggðir vextir voru í sögulegu lágmarki.

„Það er bara góð spurning. Þetta er alltaf bara mat á hverjum tíma fyrir sig. Að hluta til var það bara vegna þess að það var nákvæmlega enginn áhugi, stemningin var orðin sú að fólk var mikið að færa sig yfir í óverðtryggt á meðan vextirnir þar voru svona lágir. Allur áhuginn var þar. Þó að verðtryggðir vextir hefðu lækkað aðeins þá voru raunvextir enn þá svo miklu hærri á þeim lánum en þeim óverðtryggðu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .