„Það stefnir í óefni því að bílaflotinn okkar er sá elsti í Evrópu og það er mjög slæmt,“ segir Úlfar Hinriksson, framkvæmdastjóri Suzuki-umboðsins á Íslandi. Fyrirtækið hefur verið starfandi frá árinu 1980. Frá fyrsta degi hefur það verið á sama stað í Skeifunni 17. Umboðið er á meðal framúrskarandi fyrirtækja ársins á lista Creditinfo.

Úlfar segir að einbeitni í rekstri og gott starfsfólk sé það sem hafi skilað fyrirtækinu góðum árangri í rúm 30 ár.

„Okkar sérstaða er sú að við erum bara með eitt merki og einbeitum okkur að því. Kannski er meiri einbeiting fólgin í því en hjá þeim sem eru með fleiri bílamerki til sölu og við höfum talið það vera kost. Svo höfum við verið mjög heppin með starfsfólk, en sama lykilstarfsfólk er búið að vera hjá okkur alveg frá upphafi. Það auðvitað hjálpar okkur að tengjast viðskiptavinunum betur. Mönnum finnst mjög gott að geta komið ár eftir ár, skipt um bíl, fengið þjónustu og séð alltaf sömu andlitin. Þetta er svona kannski viss sérstaða út af fyrir sig. Svo hefur alltaf verið okkar mottó að halda rekstrinum eins einföldum og hægt er, með lítilli viðbyggingu og stuttum boðleiðum.“

Endurnýjum bílana!

Úlfar bætir því við að það hefur ekki gengið þrautalaust að halda rekstrinum gangandi, sérstaklega í ljósi þess að fyrir nokkrum árum dróst bílasala töluvert saman. Eitt sem þarf að gera í þessu ljósi til að tryggja að bíla markaður nái sér aftur á strik að mati Úlfars er að lækka almennt gjöld á bifreiðum.  Bæði vegna þess að þessir gömlu bílar eyða miklu meira en þessir nýju auk þess sem þeir eru miklu óöruggari heldur en nýju bílarnir.

„Það verður að endurnýja þessa bíla,“ segir Úlfar.

Viðtal við Úlfar er að finna í blaðinu 462 framúrskarandi fyrirtæki sem dreift var með síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Þar er fjallað um þau fyrirtæki sem stóðust styrkleikamat Creditinfo og komust í hóp framúrskarandi fyrirtækja. Nálgast má blaðið með því að smella á hlekkinn Tölublöð .