Óli Björn Kárason er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi og nýr formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, telur mikilvægt að lækka skatta á

Hvað er það sem þig langar að sjá mest gert á þessu kjörtímabili og hver eru helstu verkefnin?

„Nú er það svo að ef ég hefði skrifað stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar einn, þá væri hann öðruvísi orðaður og það væri örugglega ýmislegt í honum sem ég hefði bætt við og annað sem ég hefði ekki haft með. Þetta geta allir þingmenn sagt.

Það sem skiptir höfuðmáli í mínum huga er að við byrjum á því að viðurkenna eina staðreynd, sem er sú að í samanburði við önnur lönd eru skattar á Íslandi mjög háir. Það skiptir ekki máli hvort þú lítur á einstaklinga eða fyrirtæki, að teknu tilliti til almannatrygginga og lífeyrisgreiðslna þannig að við séum með réttan samanburð, að þá erum við með eina þyngstu skattheimtu á Vesturlöndum. Ef við vindum ekki ofan af þessu og förum ekki að taka skynsamleg skref í að lækka skattbyrðina, þá mun tvennt gerast. Annars vegar verður samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja lakari og hins vegar verður ekki eins eftirsóknarvert fyrir ungt fólk að setjast hér að eins og annars staðar.

Við Íslendingar eigum gríðarleg tækifæri en til þess að nýta þau verðum við meðal annars að gera það aftur eftirsóknarvert að eiga og stofna fyrirtæki. Ég hef orðað þetta þannig að við eigum að hefja sjálfstæða atvinnurekandann aftur til vegs og virðingar.

Það er staðreynd að ungt fólk getur nú valið sér búsetu hvar sem er vegna þess að það er er orðið alþjóðlega menntað, margtyngt og svo framvegis, sem var kannski ekki jafn algengt meðal minnar kynslóðar og hvað þá kynslóðar foreldra minna. Unga kynslóðin er alþjóðlega samkeppnishæf og samkeppnishæfni okkar Íslendinga snýst um að gera það eftirsóknarvert fyrir ungt fólk að setjast hér að. Þar skiptir skattbyrðin máli sem og hvernig þjónusta á borð við heilbrigðisþjónustu og menntakerfið er, og hver tækifærin eru. Tækifærin skapast hér þegar þú ert með hófsamt skattkerfi einstaklinga og fyrirtækja og ég vil leggja áherslu á það.

Ég held einnig að það sé hægt að ná verulegum sparnaði í útgjöldum ríkisins og ég held að við þurfum líka að velta því fyrir okkur að við erum að greiða 70-80 milljarða króna á ári í vexti vegna þess að ríkissjóður er svo skuldsettur, þrátt fyrir að verulegur árangur hafi náðst í að lækka skuldir á síðasta kjörtímabili. Skuldahlutfall hins opinbera er að lækka og mun lækka hér verulega og við munum komast í hóp þeirra ríkja sem skulda minnst, en það breytir því ekki að vaxtakjörin og vaxtabyrðin eru nú ótrúlega þung.

Á sama tíma liggur ríkissjóður með ýmsar eignir, t.d. 450 milljarða í tveimur bönkum, Íslandsbanka og Landsbankanum, og einhverja 26-27 milljarða að auki með 13% hlut í Arion banka. Þetta er auðvitað galið og við hljótum að fara að vinna að því að minnka hlut ríkisins. Menn geta fært rök fyrir því að ríkið eigi að eiga ráðandi hlut í einhverjum banka, ég er að vísu ekki sammála því en ég skil þau rök. En skuldsett ríkið verður að fara að skoða sína eignastöðu og ræða það af fullri alvöru hvaða eignir það eru sem ríkið á að halda eftir og losa sig við. Þá getum við lækkað skuldir og lækkað vaxtabyrði, sem eykur þá möguleika á að veita þá þjónustu sem við viljum og lækka skatta.“

Hvernig telurðu að ríkið ætti að losa um eignarhlut sinn í bönkunum til að geta greitt niður skuldir og lækkað skatta?

„Það eru nokkur ár síðan Bjarni Benediktsson varpaði fram þeirri hugmynd að til greina kæmi að ríkið afhenti almenningi endurgjaldlaust 5-10 prósent í ríkisbankanum, sem þá var Landsbankinn. Ríkisstjórnin hefur það í stefnuskrá sinni að afhenda tiltekinn hlut í bönkunum til almennings. Þetta held ég að skipti mjög miklu máli, að almenningur eignist með beinum hætti hlut í fjármálakerfinu, fyrir utan að ég tel að það sé réttlætismál.

Almenningur og fyrirtæki urðu fyrir gríðarlegum búsifjum alveg eins og ríkissjóður þegar hrunið varð í október 2008, og mér finnst eðlilegt og sanngjarnt að almenningur fái hluta til baka. Ég bendi á að 20% hlutur í Íslandsbanka og Landsbanka og 13% í Arion banka eru um 117 milljarðar, sem hægt væri að afhenda almenningi. Ég geri mér grein fyrir því að markaðsverðið er örugglega nokkru lægra en þetta eru 117 milljarðar af eigin fé bankanna. Ef almenningur er farinn að hafa bein áhrif með þessum hætti á bankana, t.d. á hluthafafundum, þá held ég að þetta sé einhver besta leiðin til að eyða tortryggni í garð fjármálakerfisins og mun ýta undir þann veikburða hlutabréfamarkað sem er hérna.

Ég er sannfærður um það að með því að auka þátttöku almennings í atvinnulífinu og fjármálakerfinu mun það skila árangri og betri skilningi almennings á því að hagsmunir fyrirtækja og almennings eru samþættir.“

Nánar er fjallað við Óla Björn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .