Næsti fundur í kjaradeilunni í Straumsvík verður að óbreyttu ekki fyrr en í lok næstu viku. Aðilar funduðu á föstudaginn en sá fundur stóð einungis í korter. Lögum samkvæmt ber deiluaðilum að funda á tveggja vikna fresti og því verður næsti fundur á föstudaginn í næstu viku. Óhætt er að segja að deilan sé í algjörum hnút ekki síst eftir að Sam Walsh, aðalforstjóri Rio Tinto, tilkynnti um miðjan mánuðinn að laun allra starfsmanna fyrirtækisins yrðu fryst á þessu ári.

Kjaradeilan var rædd á miðstjórnarfundi Alþýðusambands Íslands í síðustu viku og eftir þann fund var Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, mjög harðorður. Sagði hann útspil forstjórans vera gróft inngrip í kjaraviðræðurnar og íslenskan vinnumarkað. Benti hann einnig á að Samtök atvinnulífsins (SA) væru með samningsumboðið og furðaði sig á að engin yfirlýsing hefði komið frá þeim í kjölfar ákvörðunar aðalforstjórans. Þá sagði hann að svo gæti farið að kjaradeilan í Straumsvík myndi smitast út í allt atvinnulífið. Hugsanlegt væri að aðildarfélög ASÍ færu í samúðaraðgerðir.

Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto Alcan, útilokar ekki nýtt tilboð.

„Við erum að skoða hvers konar tilboð við getum komið með í ljósi þessarar tilkynningar forstjóra Rio Tinto. Ég held ég segi nú ekkert mikið meira en það. Eitthvað verða starfsmenn að fá að kjósa um. Við getum ekki haft þetta svona í lausu lofti. Við verðum einhvern veginn að ljúka þessu máli."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .