„22. júlí árið 2011 breyttist margt í Noregi. Í tvö ár höfum við farið yfir atburðina, bæði lögregla og ríkisstjórn hafa sætt harðri gagnrýni. Sú gagnrýni er réttmæt. Við vorum alls ekki viðbúin þessu og gerðum mörg mistök,“ segir Odd Reidar Humlegård ríkislögreglustjóri Noregs. Hann gengur því næst að glugganum og bendir út. „Sjáið þið bygginguna þarna?“ segir hann og bendir á stjórnaráðshús Noregs sem sést út um gluggann á lögreglustöðinni. „Sprengjan var nú sérstaklega ætluð þessu húsi,“ segir hann og sest aftur. Humlegård, var skipaður í embætti Ríkislögreglustjóra Noregs í ágúst 2012, um það bil ári eftir voðaverk Breiviks. Forveri hans Øystein Mæland neyddist til að segja af sér eftir að hafa sætt harðri gagnrýni sem birtist í skýrslu nefndar sem fór yfir viðbrögð lögreglunnar við atburðunum. Áður var Humlegård yfirmaður rannsóknarlögreglu Noregs – KRIPOS sem einnig hefur sætt harðri gagnrýni. Humlegård virðist þó njóta mikils trausts og miðað við kannanir í Noregi nýta lögreglan þar einnig mikils trausts.

Um áttatíu prósent Norðmanna treysta lögreglunni þar í landi og hefur það lítið dvínað eftir illvirki Breiviks. Humlegård þakkar það því að lögreglan hafi kosið að viðurkenna mistök sín, horfast í augu við þau og reyna að læra af þeim. Fjöldi annarra ríkja hefur einnig reynt að nýta sér þessa skelfilegu reynslu Norðmanna við betrumbætur á lögregluembættum sínum. Humlegård hefur því fengið gesti víða úr heiminum og farið yfir viðbrögðin. „Ef það gerðist í Noregi getur það gerst allsstaðar og við verðum að vera viðbúin því óvænta,“ segir hann en útskýrir að um leið verði til þó nokkur togstreita. Lögregla og almenningur verði vissulega að vera viðbúin því óvænta og hættulega en um leið eigi ekki að skapa óþarfa ótta, nú eða ræða mál sem talin eru líkleg til að kveikja hættulegar hugmyndir hjá vanstilltu fólki.

Gátu ekki ímyndað sér að slík árás myndi verða
Humlegård segir að vandinn sem lögreglan hafi staðið frammi fyrir 22. júlí 2011 hafi verið sá að lögreglan hafi ekki haft hugmyndaflug til að ímynda sér að árás, líkt og sú sem gerð var í Útey, gæti gerst. Lögreglan kunni að hafa verið undirbúin alls kyns atburðum á þéttbýlisstöðum eins og í Osló, en ekki á stað eins og Útey „Við vorum ekki viðbúin og fyrir það höfum við verið gagnrýnd,“ segir hann. Það sem skipti máli sé að vera viðbúinn því ófyrirsjáanlega. „Næsta árás getur verið þannig að við sjáum ekki neitt og heyrum ekki neitt. Þó getur kannski einhver verið að gera tölvuárás og fella greiðslukerfið okkar, þannig að t.d. enginn getur notað greiðslukortin.Hvað gerist ef greiðslukortin virka ekki? Þú getur ekki keypt mat, getur ekki keypt bensín á bílinn. Það yrði algjör ringulreið. Í byrjun hefur þetta engin áhrif en eftir þrjá eða fjóra daga getur þetta farið að hafa mikil áhrif. Það skiptir því máli að hafa hugmyndaflug í að takast á við hið óvænta,” segir hann.

Auk tölvuhryðjuverka segir Humlegård að mögulegir atburðir sem lögreglan verði að fast við séu skæðar farsóttir, eitranir og annað slíkt. Ólíklegt sé að skotárás, alveg eins og sú sem var gerð í Útey, gerist á næstunni. „Við höfum reynt að styrkja lögregluna þannig að hún sé betur undirbúin fyrir erfiðar aðstæður, betur þjálfuð til að takast á við aðstæður sem alltaf geta komið upp,“ segir Humlegård og tekur dæmi um rútu- og flugslys. Hann útskýrir að vatnsból í Noregi séu víða mjög berskjölduð og hafi fólk sterkan vilja til að gera öðrum illt sé nær ómögulegt að koma í veg fyrir það, þá sé mjög mikilvægt að vera eins vel undirbúin og kostur er á svo hægt sé að lágmarka skaðann.

Margt er líkt með aðstæðum lögreglunnar á Íslandi og í Noregi. Þar eru óbreyttir lögreglumenn vopnlausir, byggðir eru dreifðar og fjöldi fámennra lögreglustöðva sem eiga erfitt með að takast á við erfiðar aðstæður. Humlegård segir nú sé unnið hörðum höndum að því að styrkja stöðu lögreglunnar í fámennum byggðalögum. Þeir eigi að fá aukna, þjálfun, eiga greiðan aðgang að aðstoð sérsveita og liðsauki eigi að geta borist á sem skemmstum tíma. Þá sé einnig verið að endurskoða vopnalöggjöfina, til greina komi að skotvopn og skotfæri verði sett í alla lögreglubíla óbreyttra lögreglumanna sem hægt væri að fá heimild til að grípa til í algjörri neyð. Lögreglumenn á Íslandi hafa margir hverjir kallað eftir heimildum um að fá að nota rafbyssur við störf sín. Humlegård kannast við svipaða umræðu í Noregi en segir ekki standa til að almennir lögregluþjónar fái rafbyssu í tækjabeltið.

„Við erum mjög friðsöm lögregla og þannig vill fólk hafa það,“ segir Humlegård og brosir. Við viljum að lögreglan sé til þjónustu reiðubúin fyrir borgarana, við viljum að lögreglumenn séu vel menntaðir [lögreglumenn í Noregi þurfa að fara í þriggja ára háskólanám] en við viljum ekki að hún sé gerð fyrir átök. „Ég held að við eigum það sameiginlegt íslensku lögreglunni,“ segir hann.

Lögreglumenn fögnuðu gagnrýninni
Í skýrslu svokallaðrar 22. júlí-nefndar sem rannsakaði viðbrögð lögreglu gagnvart voðaverkum Breiviks birtist hörð gagnrýni á störf lögreglunnar og yfirvalda. Humlegård segir að lögreglumenn hafi ekki einungis sætt sig við þá gagnrýni heldur hafi henni beinlínis verið fagnað. Margt hafi mátt bæta og gott hafi verið að fá yfirlit yfir það. Sérstaklega hafi yfirvöld þurft að horfast í augu við það að þeim hafði ekki tekist að framfylgja verkefnum sem ráðist hafði verið í. „Ég er sammála því sem fram kemur í skýrslunni að það eru ýmsar hugmyndir sem þarf að framkvæma sem lögreglan og ýmsir opinberir aðilar hafa ekki afl til að framkvæma. „Það var ein af aðalábendingunum í Gjörv skýrslunni – við fáum hugmyndir en getum ekki framkvæmt þær,“ segir Humlegård. Þar nefnir Humlegård sem dæmi að staðið hafði til í langan tíma að bæta fjarskiptakerfið en gallar í því voru ein af ástæðunum fyrir því að langan tíma tók að koma boðum til lögregluyfirvalda í Ósló um árásina í Útey. Þá hafði einnig staðið til að loka fyrir umferð Grubbegötu, þar sem bílasprengja Breiviks sprakk í langan tíma en sjö ár frá því fyrstu alvarlegu ábendingarnar bárust um hættu sem þar gæti skapast. „Vitanlega hefði átt að vera búið að loka götuna. Það eru bæði skrifstofur forsætisráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins. Bílar áttu ekki að geta lagt þarna og á þetta var oftsinnis búið að benda á og lögreglunni var vel kunnugt um þessa hættu en samt hafði ekkert verið gert,“ segir Humlegård og útskýrir að orðið Grubbegata hafi orðið einskonar háðsyrði sem notað sé í Noregi þegar of langan tíma tekur að hrinda mikilvægum málum í framkvæmd. „Vissulega hefði verið hægt að móðgast yfir gagnrýninni sem birtist í skýrslunni en það gerðum við ekki og ég held að það hafi styrkt okkur og komið í veg fyrir að traust til lögreglunnar dvínaði meira en það gerði,“ segir hann en bætir við að það sé þó ekki eina skýringin. Traustið hafi verið áunnið vegna góðra starfa um langt skeið. Fólk sýni líka þeim mistökum sem gerð hafi verið 22. júlí árið 2011 ákveðinn skilning. Humlegård vinnur nú að ýmsum breytingum innan lögreglunnar sem miða að því að koma til móts við gagnrýni skýrsluhöfunda. Meðal annars er stefnt að því að fækka lögregluembættum þar úr 27 í sex á næstunni. „Við munum því nota þetta gagn mikið á næstu árum,“ segir Humlegård. Hann lítur út um gluggann og segir að Norðmenn séu breytt þjóð eftir þessa atburði en fólk sé smám saman að jafna sig. „Núna þurfum við bara að búa okkur undir framtíðina svo hægt verði að takast á við erfiðleika betur eins vel og hægt er,“ segir Humlegård.

Ekki má ofmeta mátt forvirkra rannsóknarheimilda
Íslenskir lögreglumenn hafa mun takmarkaðri rannsóknarheimildir en koleggar þeirra á Norðurlöndum. Kallað hefur verið eftir víðtækari rannsóknarheimildum sem gerir lögreglunni kleift að afla upplýsinga um fólk og greina þær án þess að fyrir liggi rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi. Þessar heimildir eru venjulega kallaðar forvirkar rannsóknarheimildir. Til dæmis hafði lögreglan í Noregi aflað upplýsinga um kaup Breiviks á áburði sem hann notaði svo til að búa til sprengju. Ekkert var gert við þessar upplýsingar. Humlegård segir að ekki megi ofmeta mátt þessara rannsóknaheimilda. Á hverjum einasta degi geri einhver eitthvað sem gæti gefið lögreglu tilefni til að rannsaka málið betur ekki sé þó hægt að ætla öllu þessu fólki að hafa illan ásetning.

„Við viljum ekki ætla fólki illt. Við viljum að stjórnmálamennirnir okkar og æðstu embættismenn geti gengið um götur án lögregluverndar. Við viljum opið samfélag og nýta það til að styrkja okkur. Og það er mikilvægt að átta sig á að við getum ekki lifað fullkomlega óttalaus og yfirvöld geta ekki fyrirbyggt allar hættur með  skipulagninu og rannsóknum. Þessu þarf fólk líka að átta sig á. Á sama tíma þurfum við að vera eins vel undirbúin því óvænta og kostur er.“

Hér má lesa viðtal við Alexöndru Bech Gjørv , formann 22. júlí nefndarinnar. Nefndin rannsakaði viðbrögð lögreglu við árásum Breiviks.