Donald J. Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði í ræðu í gær að hann þyrfti sjálfur að sjá um fríverslunarsamning milli Breta og Bandaríkjamanna, þar sem að bandaríska þingið hafði enn ekki samþykkt viðskiptaráðherraefni hans. Þetta kemur fram í frétt CNN .

„Ég hitti May á morgun. Ég er ekki enn kominn með viðskiptaráðhherann minn. Þeir vilja ræða um fríverslun, svo ég verð bara að sjá um þetta sjálfur. Sem er í lagi,“ sagði Trump á ráðstefnu æðstu ráðamanna í Repúblikanaflokknum í gær.

Wilbur Ross sem Trump hefur tilnefnt sem viðskiptaráðherra, hefur ekki hlotið samþykki efri deildar Bandaríkjaþings. Trump gagnrýndi þingið og sagði að þau væru ekki nógu fljót að samþykkja ráðherraefni sitt. „Þeir gætu unnið hraðar þarna hinum megin,“ tók hann fram.

Það er þó óvíst um hvort að Trump hafi verið að tala bókstaflega í þessum skilningi. Í fyrsta lagi geta Bretar enn ekki gert sína eigin fríverslunarsamninga þar sem að þeir eru formlega enn í Evrópusambandinu. Trump hyggst þó leggja línurnar varðandi nýjan fríverslunarsamning milli landanna tveggja í dag.