*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 28. nóvember 2015 13:10

Verður álverinu lokað?

Raforkusamningur Rio Tinto Alcan er trúnaðarmál. Spurningin er hvort í honum sé ákvæði sem leysir Alcan undan honum.

Ólafur Heiðar & Trausti
Úr álverinu í Straumsvík.

Raforkusamningur Landsvirkjunar við álverið í Straumsvík er trúnaðarmál, líkt og samningar fyrirtækisins við hin álverin tvö, Norðurál og Fjarðaál. Í stórum samningum raforkusala við stórnotendur raforku, sem gilda í tugi ára, eru hins vegar alltaf ákvæði sem fella samningana úr gildi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Spurningin sem vaknað hefur núna er hvort í samningi ÍSAL sé ákvæði um að verkfall eða vinnustöðvun innan fyrirtækisins, sem leiði til þess að slökkt sé á kerjum álversins, leysi fyrirtækið undan kaupskyldu við  Landsvirkjun. Þeir sérfræðingar sem Viðskiptablaðið hefur rætt við telja það ólíklegt.

Yfirleitt taki þessi ákvæði til óviðráðanlegra ytri atvika (force majeure) eins og til dæmis náttúruhamfara eða jafnvel allsherjarverkfalls í landinu. Vinnustöðvun, sem bresti á vegna þess að fyrirtækið sjálft hafi ekki náð að semja við sitt starfsfólk, sé ekki nægjanleg ástæða. Slík vinnustöðvun uppfylli að minnsta kosti ekki skilyrði ákvæðisins um óviðráðanleg ytri atvik.

Til þess að flækja málið enn frekar þá stangast þessi skýring á við það sem kom fram í Morgunblaðinu 20. maí árið 1988. Þá var staðan í álverinu svipuð og nú því verkfall var yfirvofandi. Í blaðinu kom fram að samkvæmt samningi álversins við Landsvirkjun væru „vinnudeilur taldar til óviðráðanlegra orsaka rekstrarstöðvunar og er ÍSAL ekki skuldbundið til að greiða raforkukostað á meðan framleiðslan stöðvast af þeim sökum."

Ef þetta var rétt hjá Morgunblaðinu árið 1988 má velta fyrir sér hvort þetta ákvæði sé svona orðað í samningnum sem í gildi er í dag. Þeir einu sem geta svarað því eru forsvarsmenn álversins og Landsvirkjunar en vegna ákvæða um trúnað er ómögulegt að fá skýr svör. Eins er hugsanlegt að skilja megi fréttina frá 1988 þannig að stöðva megi greiðslur tímabundið við aðstæður sem þessar án þess að það veiti eiganda álversins heimild til að loka því og ganga skaðlaus frá raforkusamningnum.

Í þessu sambandi er líka vert að taka fram að Landsvirkjun er útgefandi skráðra skuldabréfa og bæri því að gefa út viðvörun ef hætta væri á miklu tekjutapi. Slík viðvörun hefur ekki verið gefin út.


Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Straumsvík ál