Ormsson er vel rekið fyrirtæki og sterkt vörumerki og þar er gríðarlega reynslumikið og öflugt starfsfólk. Fyrirtækin eru ólík og við teljum að SRX geti styrkt Ormsson og öfugt,“ segir Kjartan Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri SRX sem fest hefur kaup á Ormsson.

Kjartan mun stýra sameinuðu félagi sem verður eitt það stærsta á íslenskum raftækjamarkaði. Ráðgert er að sameinað félag velti sex milljörðum króna á ári með um 20% markaðshlutdeild, en starfsmennirnir verða um sextíu.

Ormsson er landsþekkt vörumerki og heldur upp á hundrað ára afmæli á næsta ári. Líklega þekkja færri til SRX, sem þó er ein stærsta heildverslun á sviði raftækja hér á landi. Félagið velti 2,2 milljörðum króna á síðasta ári og selur farsíma, rafmagnshlaupahjól, heyrnartól og spjaldtölvur auk fjölda annarra raftækja.

„Við seldum ellefu þúsund rafmagnshlaupahjól á síðasta ári og erum með um 30% markaðshlutdeild í Apple-vörum á Íslandi,“ nefnir Kjartan sem dæmi.

Vera sáttir eða vilja meira?

Kveikjan að kaupunum á Ormsson var stefnumótun hjá SRX í kringum síðustu áramót.

„Við fórum að skoða reksturinn í byrjun árs og velta fyrir okkur hvaða kostir væru í stöðunni. Í fyrsta lagi að vera sáttir við núverandi stærð með fimm starfsmenn og 2,2 milljarða króna í veltu. Það eru áskoranir í því, þar sem við erum með fremur fáa viðskiptavini og fáa vöruflokka. Í öðru lagi var að bæta við starfsfólki og stækka lagerinn, sem tæki líklega um tvö ár að ná til baka í gegnum aukinn EBITDA rekstrarhagnað. Þriðja leiðin var að sameinast eða taka yfir fyrirtæki sem hefði upp á það að bjóða sem við vorum að leita að. Þá kom Ormsson upp og við urðum strax mjög áhugasamir.“

Nær engin skörun milli vöruflokka

Þó að félögin starfi bæði á raftækjamarkaðnum bendir Kjartan á að nær engin skörun sé á milli vöruflokka fyrirtækjanna, sem skapi ýmis tækifæri. „Það er ótrúleg tilviljun að það hafi hist þannig á.“ Ormsson sé öflugt á sviði heimilistækja, sjónvarpstækja og hljómflutningstækja sem og eldhúsinnréttinga, en það eru allt svið sem SRX hefur lítið sem ekkert starfað innan.

Fram undan er stefnumótunarvinna með starfsfólki Ormsson. Ormsson rekur í dag verslun í Lágmúla í Reykjavík og er ekki stefnt á að breyta því með nýjum eigendum. Fyrirtækið er einnig með verslun á Furuvöllum á Akureyri. Tækifæri eru til að efla heildsöluhluta Ormsson og samþætta í meiri mæli sölu eldhúsinnréttinga og heimilistækja, sem og að efla viðskiptasambönd við verktaka.

Ormsson var að mestu í eigu Andrésar B. Sigurðssonar, sem hefur verið viðloðandi reksturinn í áratugi, en hann varð fyrst framkvæmdastjóri Ormsson árið 1993. Andrés mun nú láta af störfum og óskaði hann nýjum eigendum velfarnaðar þegar greint var frá kaupunum .

Nánar er rætt við Kjartan Örn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .