Talið er líklegt að efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar (e. Serious Fraud Office) hætti rannsókn sinni á fjárfestinum Vincent Tchenguiz og viðskipta hans. Þetta hefur legið í loftinu um nokkurt skeið og gaf breska dagblaðið Financial Times það út um helgina að líklega yrðu það málalokin. Breska dagblaðið Telegraph segir í morgun óvíst hvort yngri bróðir hans, Robert Tchenguiz, verði hins vegar svo heppinn.

Í Telegraph er rifjað upp þegar efnahagsbrotadeildin gerði húsleit á heimilum og skrifstofum bræðranna og þeir handteknir árla morguns í fyrravor. Þeir Tchenguiz-bræður hafa um árabil verið umsvifamiklir á breskum fasteigna- og verktakamarkaði. Robert Tchenguiz var hluthafi og stjórnarmaður í Existu á sama tíma og hann var einn af helstu lántökum Kaupþings í Bretlandi. Efnahagsbrotadeildin telur hann hafa haft óeðlilega gott aðgengi að lánsfé. Vincent bróðir hans hefur haldið því fram alveg frá því þeir voru handteknir að það sama gildi ekki um sig og Robert. Handtakan hafi komið sér illa og hann orðið fyrir miklu fjárhagslegu tjóni sökum þess.

Telegraph segir sömuleiðis líkur á að samhliða því sem rannsókninni á Vincent Tchenguiz verði hætt muni David Green, sem nýverið tók við forstjórastólnum hjá efnahagsbrotadeildinni, fara ofan í saumana á því sem fór úrskeiðis í rannsókn efnahagsbrotadeildarinnar á auðjöfrinum.