Nái nátttúrupassafrumvarp iðnaðarráðherra ekki fram að ganga á þessu þingi verður plan B tilbúið í ráðuneytinu. Þetta sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í Morgunútgáfunni á Rás 2 í morgun, en RÚV greinir frá.

„Við munum sem opinberir aðilar gæta að ábyrgð okkar. Ég hef í samvinnu við fjármálaráðherra hafið vinnu við að kortleggja staðina sem ríkið ber ábyrgð á. Það má ekki gerast að við látum tímann líða án þess að bregðast við þessu. Ef að náttúrupassinn nær ekki fram að ganga, eða hann tefst, þá verður brugðist við með öðrum hætti,“ sagði Ragnheiður Elín.

Samkvæmt frumvarpinu á náttúrupassinn að taka gildi 1. september næstkomandi. Ragnheiður segir að verið sé að skoða sérstaklega í ráðuneytinu hversu tilbúnir staðirnir séu til uppbyggingar til að geta verið viðbúnir ef frumvarpið fer ekki í gegnum þingið.