„Við sigldum heim frá Hanstholm í Danmörku og fengum suðvestankalda og lens alla leið til Færeyja. Báturinn lætur vel í sjó og öðruvísi hreyfingar í honum en í litla Bárði. Brúin er hátt yfir sjó og veltan er lengri. Báturinn fer mjög vel með mannskapinn,“ segir Pétur Pétursson yngri, sem fór ásamt föður sínum að sækja nýja Bárð til Danmerkur í byrjun mánaðar.

Bárður SH 81 er tæpir 27 metrar á lengd, sjö metra breiður og með 2,5 metra djúpristu. Hann er smíðaður hjá Bredgaard Boats í Rødbyhavn í Danmörku og er stærsti trefjaplastbátur sem smíðaður hefur verið fyrir íslenska útgerð. Pétur Pétursson, útgerðarmaður og eigandi bátsins segist mjög ánægður með hann.

„Allt sem við höfum prófað í siglingunni frá Danmörku hefur reynst vel. Við höfum auðvitað ekki lent í neinum brælum ennþá. Það verður nógur tími til að prófa það seinna meir. Hér í Hafnarfjarðarhöfn verður gengið frá ýmsum hlutum í bátnum. Til dæmis verður sett í hann netaspil og fleira.“

Tölvustýrð stjórnun á snurvoð

Aðalvélin í bátnum er frá MAN og er 900 hestöfl. Snurðvoðarspil, netatromla og stjórnbúnaður fyrir snurvoðina er með því fullkomnasta sem þekkist. Öll stjórnun á snurvoðinni er tölvustýrð með snertiskjá. Þá eru í honum tvær ljósavélar og hliðarskrúfur eru að framan og aftan.

Pétur verður skipstjóri á Bárði og sonur hans, Pétur yngri, stýrimaður. Auk þeirra verða fjórir í áhöfn. Pétur yngri segir stefnt að því að báturinn verði kominn til Ólafsvíkur fyrir jól þannig að hægt verði að fara til veiða á milli jóla og nýárs.

Nýjung að komast á dragnót

„Fyrir okkur er það nýjung að það verða þvottakör um borð þar sem fiskurinn er blóðgaður áður en hann fer ofan í lest. Þar er hann kældur í krapa og við erum með krapavél. En stærri nýjung verður fyrir okkur að við verðum útbúnir til að fara á dragnót. Við höfum eingöngu verið á netum fram að þessu en nú stefnir í að við getum verið á dragnót jafnvel hálft árið. Menn eru bara spenntir með nýjan bát, mikið pláss og nóg pláss fyrir fiskinn svo ekki þarf að tvílanda. Gæðin verða örugglega meiri líka. Við höfum yfirleitt lagt upp hjá Þórsnesi í Stykkishólmi þar sem við erum í föstum viðskiptum.“

Eldri Bárður var gerður út frá Arnarstapa og Ólafsvík en nú stefnir í að nýi báturinn leggi eingöngu upp á  Ólafsvík. Útgerðarsagan nær allt aftur til 1983 þegar Pétur Pétursson keypti lítinn trébát með litlu stýrishúsi og gaf honum nafnið Bárður í höfuðið á Snæfellsás.  Núverandi Bárður er sá fjórði í röðinni með þessu nafni og sá stærsti.

„Fjárfesting af þessu tagi tekur auðvitað á en þetta er ekki spretthlaup hjá okkur heldur hugsað langt fram í tímann,“ segir Pétur yngri.

Aflhlutir eru umboðsaðili fyrir Bredgaard Boats. Hrafn Sigurðsson, einn af eigendum fyrirtækisins, bendir á að mikil endurnýjun hafi átt sér stað í togaraflotanum og uppsjávarskipum og nú sé komið að hefðbundnum vertíðarbátum.

„Ég er sannfærður um að með þessum nýja bát hefjist nýr kafli í smíði plastbáta fyrir íslenskar útgerðir. Vinnan er einstaklega vönduð og verðið mjög gott. Við höfum mikla trú á því að fleiri fylgi í kjölfarið,“ segir Hrafn.