Útgerðarfélag Reykjavíkur hefur keypt Sturlaug H. Böðvarsson AK af HB Granda og nefnt skipið Mars RE. Um tíma stóð til að gera skipið út til veiða en horfið var frá þeim hugmyndum. Verður það nýtt sem varahlutalager fyrir önnur skip Útgerðarfélagsins. Runólfur Viðar Guðmundsson framkvæmdastjóri segir að verið sé að skoða kaup á nýju eða notuðu skipi.

Sturlaugur H. Böðvarsson AK var smíðaður hjá Þorgeir og Ellert á Akranesi árið 1981 og var í rekstri hjá Haraldi Böðvarssyni hf. allt fram að sameiningu þess og Granda hf. í Reykjavík árið 2004. Hann kom úr sinni síðustu veiðiferð fyrir HB Granda í febrúar 2018 og hefur legið við bryggju síðan.

„Í augnablikinu stendur ekki til að gera neitt með skipið. Við höfum tekið mikið af varahlutum úr því sem nýtast í önnur skip félagsins. Það er lítið mál að losa sig við svona skip en það felast í því töluverð verðmæti í ýmsum búnaði, tækjum og tólum. Það má eiginlega segja að skipið sé fljótandi varahlutalager fyrir okkur,“ segir Runólfur.

Hann segir að fyrirtækið sé að undirbúa önnur skip á veiðar. Það gerir út aflaskipið Kleifaberg en í mars á þessu ári var Guðmundur í Nesi seldur til Grænlands. Runólfur segir ekki alveg fast í hendi hvaða önnur skip verði notuð. Verið sé að skoða ýmsa möguleika í þeim efnum, jafnt nýsmíði sem kaup á notuðu skipi.

„Okkur vantar alveg klárlega eitt skip til viðbótar við Kleifabergið fyrir veiðar á Íslandsmiðum.“

Gott ástand á fiskistofnunum

Í dag leggur Hafrannsóknastofnun fram ráðgjöf um aflamark í öllum fisktegundum fyrir næsta fiskveiðiár. Runólfur kveðst ekki sjá annað en að fiskistofnarnir séu heilbrigðir og misjafnar sögur fari af mælingum Hafró.

„Heilt yfir held ég að allir fiskistofnarnir séu bara í fínu ásigkomulagi. Veiðar hafa gengið einstaklega vel. En ég á þó ekki von á stórtækum breytingum hvorki í aukningu né minnkun.“

Útgerðarfélag Reykjavíkur er með um 17 þúsund þorskígildistonna kvóta en innan við 1.000 tonn í þorski. Stærsta einstaka tegundin í ígildum er grálúða sem Runólfur segir verðmæta tegund en kostnaðarsamt er að veiða hana. Afli á sóknareiningu er mun minni en í öðrum tegundum.

Kleifabergið hefur mokfiskað það sem af er þessu ári. Frá áramótum fram í miðjan maí á þessu ári veiddi skipið fyrir 1.500 milljónir króna og hefur það aðeins einu sinni áður borið meiri verðmæti að landi á vertíð, þ.e. frá áramótum fram yfir miðjan maí. Það var árið 2015 þegar útgerðin leigði mikinn þorskkvóta af Rússum sem skilaði sér í heildarverðmæti upp á 2.224 milljónir króna.