Síðasta haust lagði ráðherra fram á Alþingi nýtt frumvarp um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi. Frumvarpið, sem á að leysa lögin sem féllu úr gildi 31. desember 2013 hafi hólmi, er nú til umfjöllunar hjá atvinnuveganefnd. Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður nefndarinnar, hefur sagt að samningurinn við Matorku veki upp ákveðnar siðferðisspurningar. Sérstaklega gagnvart iðnaði sem sé dálítið séríslenskur og á smáum skala eins og til dæmis bleikjueldið.

„Menn vilja ramma um þessi ívilnunarlög en þetta mál [Matorku-samningurinn] vakti okkur til umhugsunar um að kannski þurfi þessi löggjöf á Íslandi að vera þannig að hún taki tillit til svona aðstæðna," segir Jón.  "Við í nefndinni erum öll á sömu blaðsíðu hvað þetta snertir — það er þverpólitísk samstaða um þetta mál. Nú erum við að reyna að finna það orðalag eða þá grein sem gæti tekið á þessu."

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og varaformaður nefndarinnar, tók í svipað streng í umræðum á þingi á mánudaginn.

„Við eigum að sjálfsögðu að taka alvarlega þá gagnrýni sem hefur komið fram á þennan ákveðna samning og skoða vel hvort eitthvað í núverandi löggjöf sem féll úr gildi árið 2013 og þeirri sem við erum að vinna núna á þingi mætti bæta til að koma í veg fyrir eitthvað sem veki upp efasemdir um hvort fyrirtæki sitji við sama borð," sagði Lilja Rafney.  "Ef svo er þurfum við að bæta úr því. Vissulega er mjög umhugsunarvert með þetta ákveðna fyrirtæki hvað þar er nákvæmlega nýtt á ferðinni miðað við önnur sambærileg fyrirtæki sem eru fyrir í landinu, sem eru um 12 talsins, og hvaða nýjungar réttlæti þennan stuðning. Ég mun koma betur að því í seinni ræðu hvað mér finnst um það mál allt saman."

Ráðherra segir að takmarkanir þurfi að vera almennar

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segist vita að atvinnuveganefnd sé að skoða það að setja einhverjar takmarkanir í nýju lögin.

„Slíkar takmarkanir þurfa að vera almennar," segir hún. "En slíkt getur líka haft afleiðingar. Það getur þýtt að við munum ekki geta veitt ívilnanir til iðnaðar sem við viljum fá til landsins, ég nefni til dæmis gagnaver, lyfjafyrirtæki, líftækniiðnað, álver og kísilver, einfaldlega af því þessi starfsemi er þegar í landinu. Ef menn vilja einskorða takmörkunina við smáan séríslenskan iðnað sem hefur einhverja ákveðna hlutdeild í heimsmarkaði þá er það líka vandasamt. Þá værum við til dæmis að útiloka fyrirtæki sem starfa á sama sviði og Algalíf. Þess vegna segi ég að að allar takmarkanir þurfa að vera almennar en það hefur afleiðingar. Það þar sem ég er að vara við.

Frekar en að vera með svona takmarkanir held ég að við ættum kannski að velta því fyrir okkur hvort við viljum yfir höfuð hafa ívilnanir. Hingað til hefur verið samstaða um það í þinginu að hafa heildstæða rammalöggjöf. Af tvennum kostum held ég að það sé betra að vera með slík lög frekar en að vera með sérlög um hvern samning, þar sem ráðherra hefur miklu meira vald til að velja og hafna verkefnum á ómálefnalegum ástæðum. Það er ekki hægt ef við erum með heildstæð lög þar sem óháðar nefndir fara yfir hvert verkefni og þar fram eftir götunum."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .