54 af 55 ríkjum Afríkubandalagsins stefna að því að fríverslunarsvæði ríkjanna taki gildi 1. janúar næstkomandi, eftir tafir frá upphaflegu markmiði um 1. júlí síðastliðinn.

Lagalega tók African Continental Free Trate Area gildi á síðasta ári, en viðskiptin undir nýju reglunum áttu svo að hefjast í sumar. Enn á þó eftir að semja um vöruflutninga, þar á meðal eftirgjöf á tollum milli ríkjanna en samningarnir töfðust vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.

Viðræðurnar hafa nú verið fluttar yfir á rafrænt form sem Afríkubandalagið hefur sett upp í samvinnu við fleiri en 20 alþjóðleg afrísk fyrirtæki.

Stefnt er að því að fríverslunarsvæðið taki að fullu gildi árið 2030, en í aðildarþjóðunum er nú markaðssvæði fyrir um 1,2 milljarða manns. Samanlögð verg landsframleiðsla svæðisins nemur um 2.500 milljörðum Bandaríkjadala, eða andvirði um 338,6 billjónum íslenskra króna.

Einungis 15% af viðskiptum á svæðinu eru milli ríkja álfunnar, en á sama tíma er samsvarandi tala um 58% í Asíu og 70% í Evrópu. Markmið fríverslunarsamningsins er að lækka milliríkjatolla á um 90% allra vara sem ýtt geti undir fjárfestingu og flutning fjármagns og fólks á milli landa.

Samningurinn er á Bloomberg sagður vera aðdragandi þess að búa til tollabandalag sem nái yfir álfuna alla, en þess má geta að Evrópusambandið er tollabandalag, meðan NAFTA og EFTA eru fríverslunarsvæði. Sem stendur hefur norðausturafríkuríkið Eritría ekki samþykkt að vera með í samningnum.