Tilkynnt hefur verið að til standi að stækka Al Maktoum flugvöllinn í Dubai en kostnaður fyrir framkvæmdirnar mun nema 32 milljörðum bandaríkjadala. Business Insider greinir frá þessu.

Flugvöllurinn hefur að mestu verið notaður fyrir vöruflutninga frá því hann var opnaður árið 2010 en hann opnaði fyrir farþegaflutninga á síðasta ári.

Ráðgert er að framkvæmdunum ljúki eftir sex til átta ár og er búist við að 120 milljónir farþega muni eiga leið um flugvöllinn á ári að þeim loknum. Einnig er gert ráð fyrir að hægt verði að stækka flugvöllinn enn frekar þannig að hann rúmi 200 milljónir farþega á ári hverju.

Þá er búist við því að árið 2020 muni 322.000 starfsmenn starfa í kringum flugvöllinn.