Stærstu áburðarframleiðendur Kanada, Potash Corp. of Saskatchewan Inc. og Agrium inc. hafa ákveðið að sameinast og verður úr því stærsti áburðarframleiðandi heims, með markaðsvirði um 27 milljarða Bandaríkjadala.

Sameining jafningja

Sameiningin, sem lýst er sem samining jafningja, gefur hluthöfum Potash Corp. 52% í hinum nýja sameinaða fyrirtæki og restin til eigenda Agrium. Forstjóri Agrium verður forstjóri hins nýja félags, en leiðtogi Potash Corp. verður stjórnarformaður.

Höfuðstöðvarnar verða í Saskatoon í Saskatchewan, sem eru núverandi höfuðstöðvar Potash Corp, en áfram verða starfsstöðvar í Calgary, þar sem höfuðsöðvar Agrium eru staðsettar.

Lágt afurðaverð ýtir undir sameiningar

Sameiningin kemur í kjölfar fjölmargra sameininga í efnaiðnaðinum þar sem framleiðendur áburðar, skordýraeiturs og útsæðis glíma við litla eftirspurn og lágt verð.

Má þar nefna viðræður milli Bayer AG og Monsanto Co. og kaupa China National Chemical Corp. á svissneska skordýraeitursframleiðandanum Syngenta AG fyrir um 43 milljarða dala, og svo sameiningu DuPont Co. og Dow Chemical Co.

Vega hvert annað upp

Við sameininguna búast eigendur fyrirtækjanna við að geta sparað um 500 milljón dali á ári, en fyrirtækin eru talin vega hvert annað mjög vel upp, þar sem Potash Corp. framleiðir áburð og er að stórum hluta fyrst og fremst námufyrirtæki meðan Agrium fékk stærstan hluta sinna tekna frá sölu afurða beint til bænda.

Hingað til hefur einungis um 200 þúsund tonn af þeim 10 milljón tonnum sem það kaupir árlega til áframsölu komið frá Potash Corp. Hlutabréf í Potash Corp. féllu um 1,9% niður í 16,65 dali hluturinn við fréttirnar en hlutur Agrium féll um 3,4% og er nú 91,98 dalir.