Greinandi sem Bloomberg fréttaveitan ræddi við sagði að verðfall á hlutum í norska tryggingafélaginu Storebrand að undanförnu hefði mátt skýra með áhyggjum markaðarins af því að Kaupþing  [ KAUP ] eða Exista [ EXISTA ] seldu sína hluti en nú væri þeim þrýstingi að einhverju leyti létt af markaðnum, að því er fram kemur hjá greiningardeild Landsbankans.

Í gær var tilkynnt um að norska fjármálaeftirlitið hafnaði umsókn Kaupþings um leyfi til að auka hlut sinn í Storebrand í 25% úr 20% á grundvelli laga sem meina fjármálafyrirtæki að eiga meira en 10% hlut í öðru fjármálafyrirtæki nema með leyfi hins opinbera.

"Vegna verðlækkunar á bréfum Storebrand hefur verðmæti hlutar Kaupþings í Storebrand rýrnað um nærri 10 milljarða króna frá bókfærðu virði. Bréf í Storebrand hækkuðu að vísu um 7,8% í gær þar sem norska fjármálaeftirlitið veitti tryggingafyrirtækinu Gjensidige Forsikring leyfi til að auka sinn hlut í Storebrand í 19,99%," segir greiningardeildin.