Samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum fyrir árið 2013 var verg landsframleiðsla á íbúa á Íslandi 16% yfir meðaltali Evrópusambandsríkjanna 28. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Hagstofunnar.

Ísland var í 11.sæti yfir verga landsframleiðslu þegar 37 Evrópuríki (ESB ríkin auk níu annarra) voru borin saman. Verg landsframleiðsla var mest í Lúxemborg eða 164% yfir meðaltali ESB ríkjanna. Þar á eftir kom Noregur en minnst var landsframleiðslan á íbúa í Bosníu-Hersegóvínu.

Þá var Ísland í 11.sæti í röð Evrópuríkjanna þegar kemur að raunverulegri einkaneyslu á mann, þ.e. allar vörur og þjónusta sem heimili neyta, án tillits til þess hver greiðir fyrir. Raunveruleg einkaneysla á Íslandi var 13% yfir meðaltali ESB ríkjanna árið 2013. Mest var einkaneyslan í Noregi.

Verðlag einkaneyslu í Evrópuríkjunum 37 var hæst í Sviss og Noregi, 56% og 55% yfir meðaltali ESB ríkjanna. Verðlag einkaneyslu á Íslandi var 12% yfir meðaltalinu og er því Ísland í 11. sæti af Evrópuríkjunum þegar kemur að verðlagi.