Vísitalan neysluverðs stóð í stað á evrusvæðinu í maí og mælist tólf mánaða verðbólga því nú -0,1% á evrusvæðinu.

Þetta er í fyrsta skipti frá því að evran var sett á stokk, eða rétt rúm 10 ár, sem verðhjöðnun mælist á svæðinu samkvæmt upplýsingum frá Eurostat.

Það er helst lækkandi eldsneytis og matvælaverð sem dregur neysluvísitöluna niður núna en samkvæmt frétt Reuters fréttastofunnar gera sumir greiningaraðilar ráð fyrir að nú sé að hefjast verðhjöðnunartímabil. Þá er rétt að hafa í huga að verðbólgumarkmið Seðlabanka Evrópu er 2%.