Búist er við því að verð á málmum til iðnaðarnota muni falla um helming á næstu fimm árum að því er greint er frá á vef World News. Þar segir að Alþjóðgjaldeyrirsjóðurinn IMF (International Monetary Fund) hafi gefið það út á mánudag að verðlækkun á málmum muni falla stórlega og verði þá nær raunverulegu framleiðsluverði en nú er.

Sjóðurinn segir að sú hættulega iðnvæðingarstefna (breakneck industrialisation) sem rekin hafi verið í Kína síðan 2002 hafi keyrt upp verðbólgu á málmmarkaði um 180%. Það hafi valdið stórhækkuðu verð á áli, kopar, blýi, nikkel, stáli, tini og zinki. Þá eru verðhækkanirnar einnig sagðar stafa af því að sáralitlar fjárfestingar hafi átt sér stað í málmiðnaði á tíunda áratug síðustu aldar og á árunum upp úr 2000. Litlar fjárfestingar hafi orsakast af verðlækkunum á markaði. Þetta hefur algjörlega snúist við, en mikil eftirspurn í kjölfar hraðrar iðnvæðingar í Kína hefur spennt upp verðið.

Sjóðurinn sagði í spá sinni um efnahagshorfur heimsins 2006 (World Economic Outlook 2006) að á sama tíma og málmverð væri að ná margföldum framleiðslukostnaði sem framleiðendur njóti nú í ríkum mæli, muni verðið rétt skríða yfir framleiðslukostnað innan fárra ára.

IMF styður þessa spá sína með því að lækkandi verð sé á málmi í samningum á markaði til lengri tíma. Það bendi til að verðið sé um 45% hærra en það verði eftir fimm ár. Aftur á móti muni 157% hækkun á hráolíu frá 2002 að mestu haldast út þetta tímabil.

Segir IMF jafnframt að Kína standi að baki um helmingi af eftirspurn eftir mest seldu málmunum í dag, þ.e. stáli, áli og kopar. Þá standi Kínverjar fyrir nær allri eftirspurnaraukningu á nikkel og tini. Kína taki einnig til sín meira en alla aukningu á heimsframleiðslu á blýi og zinki sem þýðir að aðrar þjóðir eru að draga úr kaupum á þeim málmum.