Verið að ganga frá yfirtöku Landsbanka Íslands á breska fjármálafyrirtækinu Teather & Greenwood. Tilkynning bankans til kauphallarinnar í London (LSE) um yfirtökuboð sem nýstofnað dótturfélag Landsbankans í Bretlandi, Landsbanki Holdings (UK) plc, hefur gert öllum hluthöfum breska fjármálafyrirtækisins Teather & Greenwood hefur verið sent inn í Kauphöllina. Þar kemur fram að tilboðsgengi er 75 pens á hlut en tilboðsfjárhæðin alls um 5 milljarðar kr.

Stjórn félagsins og æðstu stjórnendur hafa einróma samþykkt yfirtökuboðið og mæla með því við hluthafa að þeir samþykki það. Tilboðsfjárhæð er alls 42,8 milljónir punda (um 5 milljarðar króna). Áætlað tilboðstímabil er frá og með 1. febrúar til og með 22. febrúar nk. Tilboðið er háð því skilyrði að yfir 50% hluthafa samþykki tilboðið og að fjármálaeftirlit í Bretlandi og á Íslandi heimili kaupin.

Eigendur 48,5% hlutafjár í Teather & Greenwood hafa nú þegar skuldbundið sig til að samþykkja yfirtökuboð Landsbankans eða á annan hátt lýst yfir stuðningi við það.

Stofnað hefur verið nýtt dótturfélag Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi sem ber nafnið Landsbanki Holdings (UK) plc. og það gerir yfirtökuboðið fyrir hönd Landsbanka Íslands hf.

Kaupin eru í samræmi við stefnu Landsbankans um að nota sterka stöðu á heimamarkaði sem grunn að aukinni alþóðlegri fjármálaþjónustu með áherslu á fyrirtækja- og fjárfestingarbankastarfsemi.

Frekara kynningarefni verður sent síðar í dag í framhaldi af fundum með starfsmönnum Teather & Greenwood og fjölmiðlum í Bretlandi.