Bandaríska fjármálaráðuneytið og seðlabankinn þar í landi unnu í dag að því að fínpússa smátriði í björgunaráætlun sinni sem ætlað er að endurfjármagna starfsemi banka og koma stöðugleika á fjármálamarkaði.

Reiknað er með að línur taki bráðlega að skýrast varðandi það hvernig bandaríska fjármálaráðuneytið mun koma inn í fjármálastofnanir þar í landi, jafn vel strax á morgun. Einnig er talið líklegt að kynnt verði til sögunnar trygging á millibankalánum og auknar innistæðutryggingar, líkt og gert hefur verið í Evrópu.

Á fundi með fulltrúum seðlabankans og fjármálaráðuneytisins í dag voru yfirmenn Bank of America, Citigroup, JPMorgan Chase, Goldman Sachs, Morgan Stanley og New York Mellon Corp.