Vilhjálmur Bjarnason, framkvæmdastjóri Félags fjárfesta, er í öllum meginatriðum sáttur við svör Þorsteins Más Baldvinssonar, stjórnarformanns Glitnis, vegna spurninga sem hann beindi til stjórnar Glitnis um kaupréttarsamninga stjórnenda og starfsmanna bankans.

Vilhjálmur segir að þótt ekki hafi öllum spurningum verið svarað standi það hins vegar upp úr að vilji sé til og verið sé að taka á málunum og það réttlæti að spurningarnar hafi verið settar fram.

„Þannig að það er verið að taka á þessum kaupréttarmálum sem er viðurkennt að voru komin út í tóma vitleysu og þá tel ég að nokkrum árangri hafi verið náð,“ segir Vilhjálmur.

Í svari Þorsteins Más kom m.a. fram að þau kjör sem Lárusi Welding voru boðin þegar hann var ráðinn forstjóri Glitnis hafi verið í samræmi við það sem þá tíðkaðist við gerð sambærilegra samninga hjá fjármálafyrirtækjum en Þorsteinn tekur fram að slíkir samningar verði ekki gerðir á meðan hann er stjórnarformaður bankans.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .