Samantekt á kostnaði vegna skilanefndar Landsbankans, þar á meðal kaup á sérfræðiþjónustu, mun liggja frammi á fundi kröfuhafa 24. febrúar næstkomandi. Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, segir verið að taka þessar upplýsingar saman eins og aðrar fyrir fundinn og koma þeim á birtingarhæft form. Meðal annars verði lagt fram endurskoðað mat á virði eigna bankans og kynnt afstöðu slitastjórnar til allra forgangskrafna í Landsbankann.

Fréttablaðið greinir á forsíðu í dag frá kostnaði skilanefnda og slitastjórna Glitnis og Kaupþings vegna aðkeyptrar þjónustu. Þar kemur fram að kostnaður hjá Glitni nam 3,4 milljörðum króna og kostnaður Kaupþings var 3,2 milljarðar.  Fram kemur að Landsbankinn neiti að veita sömu upplýsingar.

Páll segir fundur með kröfuhöfum í undirbúningi og þessar tölur liggi því ekki fyrir. Þær muni gera það að fundi loknum.

Skattgreiðendur bera kostnað af skilanefnd Landsbankans

Vegna þess að bæði Glitnir og Kaupþing verða að mestu leyti í eigu kröfuhafa, sem eru að stærstum hluta erlendir aðilar sem fjármögnuðu bankana eða keyptu skuldir þeirra á eftirmarkaði, lendir kostnaður við slitastjórnir og skilanefndir þeirra mest á erlendum aðilum. Hins vegar skiptir meira máli fyrir íslenska skattgreiðendur hver kostnaðurinn verður við uppgjör á búi Landsbankans þar sem kostnaðurinn dregst frá endurheimtum sem renna upp í Icesave skuldbindingar.