Íslensku olíufélögin hnikuðu aðeins dísilolíu- og bensínverði til lækkunar í morgun.

Það dugar þó vart til að halda í heimsmarkaðsverð sem heldur enn áfram að lækka og er komið niður undir 50 dollara tunnan.

Á hrávörumarkaði í London var verð á hráolíu til afgreiðslu í janúar komið niður í 50,40 dollara tunnan nú rétt fyrir hádegi og hafði þá lækkað um -2,25%.

Á markaði í Bandaríkjunum var verðið skráð á 52,37 dollara tunnan og hafði lækkað um -2,33%.

Unnið bensín og dísilolía lækka því líka, en verð á gasi hafði hækkað um 0,44%.

Hérlendis hafa olíufélögin verið gagnrýnd fyrir að nýta sér ringulreiðina í efnahagsmálum til að hækka sínar álögur. Það hefur einkum verið Félag íslenskra bifreiðaeigenda sem hefur haldið uppi öflugri gagnrýni og talið að olíufélögin bregðist seint við að lækka í takt við lækkanir erlendis.

Í morgun var bensínverðið lægst hjá EGO. Þar var verðið á bensínlítranum 145,20 krónur, en 176,90 á dísilolíunni.

Hjá Orkunni var bensínið á 148,10 krónur og 175,8 krónur á dísilolíunni. ÓB og Atlandsolía fylgdu þar fast á eftir með 10 aurum hærra verð á bensín- og dísilolíulítranum.