Innnes ásamt meðfjárfestum hefur gengið frá kaupum á Haugen-Gruppen af R.Twinings & Co sem er í eigu Associated British Foods plc (ABF). Innnes hefur þegar tekið við stjórn Haugen-Gruppen. Meðal annarra fjárfesta eru félög í eigu Ólafs Björnssonar, forstjóra og aðaleiganda Innnes. Þar á meðal er fjárfestingafélag en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru uppi áform um að setja fasteignir Haugen-Gruppen yfir í það félag.

Haugen Gruppen er heildsölu- og dreifingarfyrirtæki með starfsemi í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Velta félaganna á síðasta rekstrarári var rúmir 11 milljarðar króna og starfsmenn um 170  talsins.

Helstu vörumerki sem Haugen Gruppen dreifir eru Twinings, Ryvita og Blue Dragon sem framleidd eru af ABF ásamt eigin vörumerkjum Törsleffs, Paradiso og Caj P. Meðal annarra vörumerkja sem félagið dreifir má nefna, Heinz, Lindemans, El Coto, Casa Fiesta, Corona, Kikkoman, Nissin, Dare, Finn-Crisp auk margra annara vörutegunda bæði í víni og matvöru.

Að sögn Marinós Marinóssonar, framkvæmdastjóra þróunarsviðs Innnes, er markmiðið með kaupunum að byggja upp leiðandi norrænt heildsölu- og dreifingarfyrirtæki og bjóða birgjum upp á heildarlausn á dreifingu á Norðurlöndunum. Það kom fram hjá þeim Marinó og Haraldi Jónssyni, fjármálastjóra Innnes, að verið er að skoða frekari útrás félagsins til Finnlands.

Engin breyting verður í stjórnendahópi Haugen Gruppen vegna kaupanna. Hins vegar mun Marinó bera ábyrgð á uppbyggingu og samhæfingu félaganna. Þá mun Haraldur vinna náið með núverandi fjármálastjórum við aðlögun upplýsingakerfa og fjárstýringu. Kaupin hafa engin áhrif á rekstur Innnes sem verður rekið sem sjálfstætt félag áfram, segja þeir Haraldur og Marinó.