Forsvarsmenn OMX kauphallarsamstæðunnar, sem rekur kauphallir á Norðurlöndunum og í Eystrarsaltsríkjunum, funduðu seint í gær með forsvarsmönnum félagsins sem á og rekur Kauphöllina í Dubai. Tilefni fundarins eru kaup Kauphallarinnar í Dubai síðastliðinn fimmtudag á 4,9% hlut í OMX á 230 sænskar krónur á hlut, en jafnframt greindi félagið frá því að það hefði gert kaupsamning um að auka hlut sinn í OMX upp í samtals 27,4%. Með þessum kaupum er talið að líklegt að til verðstríðs muni koma á milli Kauphallarinnar í Dubai og bandaríska kauphallarfyrirtækisins Nasdaq, sem áður hafði komist að samkomulagi við OMX um að kaupa fyrirtækið á 3,6 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur 208 sænskum krónum á hlut.

Í frétt Financial Times kemur hins vegar fram að sænska ríkisstjórnin og Investor AB, eignarhaldsfélag Wallenberg fjölskyldunnar, sem fara samtals með 17,7% hlut í OMX, hafi staðhæft að verðið muni ekki vera eini þátturinn sem ræður úrslitum um söluna á OMX. Sænsk stjórnvöld, sem eiga 6,6% hlut í OMX, álíta sænsku kauphöllina vera hluta af "strategískum iðnaði" sem önnur lögmál gildi um heldur en aðra geira í atvinnulífinu. Viðskiptablaðið Wall Street Journal hefur eftir heimildarmanni sem vel þekkir til gangs mála að kaup Kauphallarinnar í Dubai á hlut í OMX séu liður í áformum hennar um að styrkja stöðu sína í kaupahallarstarfsemi í Miðausturlöndum, sem miði að því að búa til alþjóðlega fjármálamiðstöð á svæðinu. Það var búist við því að á fundi sínum með fulltrúum OMX í gær hafi forsvarsmenn Kauphallarinnar í Dubai reynt að færa rök fyrir því að norræna kauphöllinn hefði meiri tækifæri til að þróa og útvíkka starfsemi sína í Miðausturlöndum undir eignarhaldi Kauphallarinnar í Dubai, í stað þess að gegna því hlutverki að verða einhvers konar evrópskur armur Nasdaq.

Á föstudaginn sendi sænska fjármálaeftirlitið bréf til Kauphallarinnar í Dubai þar sem hún er beðin um að gera betur grein fyrir því hver áform kauphallarinnar séu með kaupunum í OMX. Fjármálaeftirlitið vill fá svör frá kauphöllinni ekki síðar en í dag, en það er í höndum hennar að taka ákvörðun um það hvort kaup Kauphallarinnar í Dubai muni leiða til þess að félagið verði að gera yfirtökutilboð í öll bréf í OMX.