Guðlaugur Þór Þórðarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Ísland verði að reyna að komast hjá því að taka upp tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar. Hann segir að verið sé að búa til falskt öryggi og því þurfi að benda á gallana og hreinlega taka slaginn.

Í samtali við Viðskiptablað Morgunblaðsins í dag segir Guðlaugur að tilskipun, sem eigi að tryggja sparifjáreigendum vernd að lágmarki sextán milljónum króna, fari banki í þrot, sé alltof áhættusöm fyrir skattgreiðendur. Ómögulegt væri fyrir íslenska ríkið að standa við skuldbindingar innistæðutryggingarsjóðs.

Hann segir jafnframt að reynt hafi verið að setja upp tryggingarsjóð í fjölmennum ríkjum Evrópu og það hafi ekki gengið sérstaklega vel. Hins vegar sé það fullkomlega vonlaust í minni ríkjum.