Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir í yfirlýsingu að verið sé að skoða dómsniðurstöðuna. „Í máli sem þessu lýstur saman tveimur meginreglum,“ segir í yfirlýsingunni.  FME var á dögunum dæmt til að greiða Ingólfi Gumundssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga 9 milljónir vegna ákvörðunar um að hann væri vanhæfur til að gegna starfi framkvæmdastjóra sjóðsins.

„Annars vegar því hlutverki Fjármálaeftirlitsins að meta hvort stjórnarmenn og framkvæmdastjórar eftirlitsskyldra aðila séu hæfir til að fara með þau völd og ábyrgð sem starfið krefst. Það eru bæði kröfur um þekkingu og reynslu, sem unnt er að mæla, en einnig huglægur mælikvarði um hvort þeir séu hæfir til að standa að traustum og heilbrigðum rekstri. Við mat á því skoðar Fjármálaeftirlitið feril viðkomandi. Hins vegar er um að ræða atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar sem verndar rétt einstaklinga til atvinnu og aflahæfis. Við tjáum okkur ekki um einstök tilvik í eftirlitsstarfseminni. Það gildir jafnt um þetta mál sem önnur,“ segir í yfirlýsingunni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .