„Við höfum verið fyrir austan allt frá því á þrettándanum og aflanum hefur verið landað á Sauðárkróki. Það er gert til að spara okkur langar siglingar suður með aflann. Framan af vorum við þrír á þessum slóðum en skipunum hefur fjölgað upp á síðkastið. Þótt veðrið hafi ekki verið gott þá hefur það sennilega verið skást á miðunum fyrir austan.“

Þetta segir Friðleifur Einarsson, skipstjóri á Helgu Maríu AK, í viðtali við heimasíðu Brims en hann og áhöfn hans komu til Sauðárkróks sl. nótt með rúmlega 120 tonn af þorski. Aflinn fékkst á Digranesflaki en þaðan var 21 tíma sigling til Sauðárkróks.

„Okkur sóttist ferðin seint. Vindurinn var alltaf á móti. Það var ekki fyrr en við komum fyrir Melrakkasléttu að við náðum 11-12 sjómílna siglingarhraða,“ segir Leifur í viðtalinu en hann kveður aflabrögðin fyrir austan í sæmilegu lagi.

„Þetta er búið að vera dálítið upp og ofan hjá okkur. Þessi túr var í góðu lagi en við höfum orðið að sætta okkur við minna. Aflinn á Digranesflaki er bara þorskur, þessi dæmigerði togarafiskur eða 2,2 til 2,3 kíló að jafnaði. Góður fiskur sem ekið er suður til Reykjavíkur til vinnslu,“ segir Friðleifur Einarsson.

Stefnt er að því að Helga María fari aftur á miðin annað kvöld en skipstjóri í þeirri veiðiferð verður Heimir